Samkvæmt dagbók lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í gærkveldi var töluverður erill. Þá hafði verið tilkynnt um snælduóðan mann sem hafði hótað öllu illu og gengið í skrokk á einstaklingi í Hlíðunum í Reykjavík. Þegar haft var uppi á manninum brást hann við sem óður hundur og beit lögreglumanninn. Var honum án frekari umhugsunar hent í steininn rannsóknarinnar vegna.
Lögreglan fór í útkall vegna einstaklings sem svaf á sínu græna í sameiginlegum stigagangi í Árbænum. Sá ofurþreytti var vakinn og ætla má að sá hinn sami hafi fengið ábendingu um að finna sér ögn notalegri svefnstað.
Þá var ökumaður handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum, í miðborginni. Sá hafði ekið á gangandi vegfarandi. Mesta mildi var að meiðsli voru minniháttar.
Einstaklingur datt á rafhlaupahjóli. Sá fór á slysadeild.
Tilkynnt var um þrjá búðarþjófa. Hverjum og einum hinna grunaða var sleppt eftir skýrslutöku.
Ekki fór varhluta af almennri og ögn minna spennandi löggæslu; eins og að klippa númeraplötur af óskoðuðum bílum og stoppa grunaða um akstur undir áhrifum. Þá mega einhverjir skemmtistaðaeigendur eiga von á kæru vegna réttindalausra dyravarða.