Laugardagur 4. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Snapchat-lýtaröskun er til og gæti orðið alvarlegt vandamál

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hefur verið talsvert skrafað um það síðustu misseri hvaða áhrif samfélagsmiðlar hafa á sjálfsmynd okkar, sérstaklega þar sem hægt er að nota alls kyns síur, eða filtera, til að stækka varir og augu og slétta úr hrukkum á myndum. Hefur það til dæmis verið nefnt að þessi þróun gæti leitt til líkamslýtaröskunar, eða body dysmorphic disorder.

Nú er fólk hins vegar farið að mæta til lýtalækna með síaðar sjálfur og biður um að fá að líta út eins og sitt síaða sjálf, að sögn lýtalæknisins Dr. Matthew Schulman. Hann kallar þetta fyrirbæri Snapchat Dysmorphia, sem gæti verið þýtt sem Snapchat-lýtaröskun.

Fólk gæti gleymt hvernig það lítur út

Fjallað er um málið á vef Huffington Post en í greininni segir Renee Engeln, sálfræðiprófessor við Northwestern-háskóla að það sé hætta á því að fólk gleymi hvernig það líti út í raun og veru þegar það síar sig stanslaust á samfélagsmiðlum.

„Þetta er spurning um að missa sjónar á því hvernig maður lítur út í raun og veru og það er eitthvað sem við tölum ekki mikið um,“ segir Renee og bætir við að fyrir daga Snapchat og Instagram hafi myndir sem búið var að eiga við eingöngu verið af stjörnum og fyrirsætum í auglýsingum og tímaritum. Þá hafi fólk almennt vitað að búið væri að eiga við myndirnar.

„Það er ekki nóg að fólk sé að bera sig saman við fullkomnar myndir af fyrirsætum heldur nú ber fólk sitt sanna sjálf við gervisjálfið sem það sýnir á samfélagsmiðlum daglega. Þetta er bara enn ein leiðin til að láta sér líða eins og maður sé ekki nógu góður á hverjum degi,“ segir Renee.

Konur í klemmu

Fram kemur í greininni að flestir sem leggist undir hnífinn hjá lýtalæknum séu konur.

- Auglýsing -

„Við setjum konur í klemmu þegar við setjum þetta stanslausa álag á þær að laga sig að sérstökum fegurðarstöðlum og síðan smánum við þær þegar þær finna fyrir álaginu og gera eitthvað í því. Ég held að það sé ekki lausnin hér. Ég held að við þurfum að færa okkur nær raunverulegum myndum af okkur sjálfum og ég held að það verði sífellt erfiðara,“ segir Renee.

Stærri augu og sléttari húð

Fyrrnefndur Dr. Matthew Schulman segir að það sé sjaldgæfara að konur biðji til að mynda um alveg eins nef og leikkonan Meghan Markle eða varir eins og samfélagsmiðlastjarnan Kylie Jenner. Nú sýna þær aðeins síaðar sjálfur og vilja apa eftir þeim.

„Allir eru að nota síur og eru annað hvort að taka næsta skrefið með því að koma með sjálfur til mín og segja: Hey, mig langar að líta svona út. Ekki allir ganga svo langt, en í höfði þeirra langar þá að líta svona út og koma til mín og segjast vilja sléttari húð, stærri augu, fyllri varir. Við erum með þessa tvo hópa af fólki,“ segir læknirinn.

- Auglýsing -

Sækja innblástur í samfélagsmiðla

Vinsælustu síurnar gera húðina einmitt sléttari og útrýmir því sem fólki finnst vera gallar.

„Fólk er að nota þessar myndir sem dæmi um hvernig það vill að húðin sín líti út, sem þýðir í raun að það vill losna við óregluleg litbrigði og mýkja fínar línur og hrukkur,“ segir Matthew.

Annar lýtalæknir, Dr. Michelle Yagoda, er sammála Matthew og segir að fleiri og fleiri sæki fegurðarinnblástur í samfélagsmiðla.

„Það kemur enginn inn til mín og segist vilja líkjast Angelinu Jolie eða síu á Snapchat. En ég hef tekið eftir því að fólk talar um svipaða hluti án þess að nota þessi orð,“ segir hún.

„Á heildina litið hefur fólk áhyggjur af stærð svitahola og áferð og lit húðar sinnar – þetta er það sem síur taka á,“ bætir hún við.

Raunverulegt vandamál

Michelle segist hafa áhyggjur af þessari þróun – að fólk vilji líkjast því sjálfi sem það sýnir á samfélagsmiðlum.

„Ég held að alltaf þegar þú getur lagað galla og búið til betri mynd af þér sjálfum að það hafi áhrif á hvernig við sjáum hvort annað og hvernig við sjáum okkur sjálf. Ég held að þetta sé raunverulegt vandamál en ég efast um að það hafi áhrif á fleira fólk en hefðbundin líkamslýtaröskun.“

Renee er sammála.

„Við erum nú á stað þar sem við missum tengsl við okkar eigið andlit og verðum hissa þegar við horfum í spegil.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -