Fjölgað hefur í hópi framhaldsskólanema sem nota Snapchat undir stýri, miðaða við árið 2016, samkvæmt rannsókn sem tryggingarfélagið Sjóva lét framkvæma. Sömu sögu má segja um þá sem leita upplýsinga á netinu samhliða því að keyra. Þó kemur fram að fækkað hefur í hópi þeirra sem almennt nota síma undir stýri og færri senda eða skrifa skilaboð á meðan þau keyra.
Það er Rannsóknir og greining við Háskóla Reykjavíkur sem framkvæmir könnunina fyrir Sjóvá. Sambærileg rannsókn var unnin árið 2016. Árið 2016 svöruðu 83% nemenda að þeir notuðu símann stundum eða oftar undir stýri, árið 2018 lækkaði þessi tala niður í 79%. Hlutfall þeirra sem nota símtæki undir stýri er því nokkuð hátt.
„Þó að notkunin sé enn þá mikil þá erum við í fyrsta skipti að sjá notkunina dragast saman. Það voru til að mynda 14% fleiri nemendur sem sögðust aldrei tala í símann án handfrjáls búnaðar nú en árið 2016. 6% fleiri segjast þá aldrei senda eða svara skilaboðum undir stýri en fyrir þremur árum,“ segir í færslu á vef Sjóvá vegna málsins.
„Það er vissulega gott að við séum að sjá einhverja jákvæða þróun í þessum efnum,“ segir Karlotta Halldórsdóttir, verkefnisstjóri forvarna hjá Sjóvá. „Það hvetur okkur áfram í baráttunni gegn símanotkun undir stýri. Um leið og það er ánægjulegt að sjá að forvarnarstarf og aukin umræða sé að skila árangri þá getum við ökumenn hins vegar gert mun betur og við verðum að halda áfram að bæta okkur. Einfaldast og öruggast er að sleppa bara alveg að nota símann í umferðinni, þannig tryggjum við okkar eigið öryggi og annarra sem best.“
Rannsóknin var unnin af Rannsóknum og greiningu við Háskólann í Reykjavík og náði til allra framhaldsskólanema á landinu. Sambærileg rannsókn var unnin árið 2016.