„Ég eiginlega bara ákvað með sjálfri mér að það yrði partur af mínu bataferli. Ég hef lifað svo alltof lengi að reyna að vera einhver önnur en ég er og er hreinlega komin með leið á því,“ segir hin 24 ára Alda Guðrún Mescudi. Alda opnaði nýverið dyrnar á Snapchat og snappar um allt milli himins og jarðar í sínu daglega lífi undir nafninu aldagudrun.
„Mig langaði alltaf að verða virkari á samfélagsmiðlum en ég lét aldrei verða af því. Svo finnst mér líka svo gaman að tala og enn betra ef fólk nennir að hlusta á það. Mig langar líka að geta talað svolítið öðruvísi um hlutina heldur en margir snapparar eru að gera. Ég vil vera hreinskilin og sé ekki tilganginn í að vera að sykurhúða hlutina,“ bætir Alda við um ástæður þess að hún byrjaði að snappa opinberlega.
Nær líklegast aldrei fullum bata
Alda hefur vakið athygli á samfélagsmiðlinum fyrir að tala tæpitungulaust um hlutina, en líf hennar hefur ekki alltaf verið dans á rósum.
„Ég hætti í skóla, greindist seint með ADHD en fór svo að vinna úr mínum vandamálum. Mín ástríða í lífinu hefur alltaf verið neglur og förðun og árið 2015 útskrifaðist ég sem naglafræðingur. Í byrjun árs 2016 stofnaði ég mitt fyrsta fyrirtæki og opnaði naglastofu. Nokkrum mánuðum síðar, um sumarið, lenti ég í bílslysi,“ segir Alda og heldur áfram.
„Ég kom mjög illa út úr slysinu og mun líklegast aldrei ná fullum bata. Ég er samt hörð af mér og hef góð gen og reyni eins og ég get að láta þetta ekki hamla mér. Ekki skánaði það svo þegar ég varð ólétt af syni mínum. Ef eitthvað hefur verið hundrað prósent þess virði í öllu þessu ferli mínu, þá er það hann en meðgangan var virkilega, virkilega erfið og í þokkabót greindist ég með fæðingarþunglyndi,“ segir Alda, sem ætlar ekki að láta erfiðleikana buga sig.
„Í dag er ég á byrjunarstigi í mínu bataferli. Ég held að allir geti verið sammála mér þegar ég segi að það eitt og sér, þá meina ég að byggja sjálfan sig upp eftir einhvers konar áföll, er hundrað prósent vinna – með yfirvinnu. En ég er einstaklega heppin með bakland og þegar eitthvað hefur komið fyrir veit ég að ég hef trausta og þétta fjölskyldu sem grípur mig.“
Geturðu hugsað um barnið þitt með þessar neglur?
Alda veitir innsýn í líf sit á Snapchat og er henni ekkert óviðkomandi.
„Það er ekki beint þema á sappinu mínu. Ég tala um allt milli himins og jarðar og það fer svolítið eftir því hvort eitthvað sé að gerast eða hvernig liggur á mér. Svo reyni ég að gefa innlit inn í lífið hjá mér. Fólk fékk að sjá og fylgjast með meðgöngunni hjá mér og svo litla Tebolla þegar hann fæddist,” segir Alda en sonur hennar fékk viðurnefnið Tebolli.
„Það var líka mjög vinsælt þegar Consuela kom í fjölskylduna. Hún er ryksuguvélmenni sem skúrar og ryksugar heima hjá mér.”
Alda vill undirstrika boðskap sinn, sem er sá að fólk eigi að gera það sem það vill við líf sitt en ekki spá í áliti annarra.
„Ég er og hef alltaf verið þessi manneskja sem segir það bara beint við vinkonu mína ef mér finnst hún virka feit í einhverri flík, á meðan Sigga segir henni að hún sé allt í lagi. Mér finnst svo leiðinlegt að sjá stelpur ekki gera það sem þær langar; eins og ef þú vilt mála þig hvern einasta morgun, gerðu það, ef þú vilt vera í þessum skóm í þessum aðstæðum, gerðu það. Sérstaklega við mæður. Það er bara allt í lagi að við gerum hluti fyrir okkur til þess að gleðja og láta okkur líða vel. Þegar okkur sjálfum líður vel þá gengur lífið betur. Ég er hrein og bein og kem til dyranna eins og ég er klædd,“ segir Alda sem hefur alveg fengið að finna fyrir gagnrýni á Snapchat.
„Mér hefur verið sent alls konar en það helsta er líklegast spurningar um hvort ég geti skeint mér eða séð um barnið mitt með þessar neglur. Eins og lengd naglanna geti sagt til um hversu hæfar við erum sem mæður? Ég er vissulega með rosalega langar neglur en ég held ég sé búin að vera með þær í næstum því sjö ár samfellt. Þetta er grínlaust orðið eins og framlenging á puttunum, ef við getum líkt þessu saman. Ég væri handlama ef ég væri með stuttar neglur og hreinlega ekki lík sjálfri mér án þeirra. Tebolli hefur til dæmis rosalega gaman að þeim,“ segir Alda og hlær.
Sögustund á snappinu
En ætli þessi hispurslausa kona deili öllu með fylgjendum sínum?
„Ósk mín er að ég geti deilt öllu með þeim en það er sumt í dag sem ég er ennþá að vinna í og get til dæmis ekki sett inn. Stundum koma líka dagar sem ég set ekkert inn. Það eru nokkrir sem hafa beðið mig um að setja inn gamlar sögur af mér, en ég hreinlega held að ég yrði dæmd fyrir það. Það er aldrei að vita nema ég fari að bomba í smá sögustund á snappinu. Ég samt passa mig alveg með hvað ég set inn, þannig séð,“ segir Alda. Og hver ætli draumurinn sé?
„Draumurinn var stór, ég er búin að láta margt rætast og þegar ég eignaðist Tebollann tók líf mitt U-beygju. Þá fór ég að vinna frá þeirri línu sem ég endaði á.“
Myndir / Úr einkasafni