Í dag auglýsir Íslandsbanki nýja leið til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Um snertilausar greiðslur í gegnum snjallsíma er að ræða. Á vef Íslandsbanka segir meðal annars: „Með kortaappi Íslandsbanka getur þú greitt með kreditkortinu þínu (frá Íslandsbanka og Kreditkortum) í gegnum símann um allan heim í þeim posum sem bjóða snertilausa virkni. Úttektarheimildir og öll önnur virkni appsins er sú sama og þegar greitt er með greiðslukorti.“
Lausnin er aðeins í boði fyrir þá sem eru með Android-síma. En á vef bankans kemur fram að tækniteymi sé að vinna að því að koma lausninni í gagnið fyrir þá sem eru með iPhone.
Á vef bankans kemur þá fram að mikilvægt sé að gera varúðarráðstafanir áður en viðskiptavinir byrja að nota þessa nýju greiðslulausn. „Þegar þú velur að borga með símanum þarftu að auðkenna þig fyrir símtækinu með PIN-númeri, fingrafari eða andlitsskanna. Ef upp kemur einhver grunur um svik á snertilausum greiðslum í gegnum símann þinn skaltu tilkynna Íslandsbanka það strax til að stofna endurkröfu um viðskiptin,“ segir á vef bankans.
Til gamans má geta að hljómsveitin Bjartar sveiflur er í aðalhlutverki í auglýsingum fyrir þessa nýju lausn.
Mynd / skjáskot af vef Íslandsbanka