Klukkan 12:32 barst Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að þrír menn hefðu lent í snjóflóði við Móskarðshnjúka og einn þeirra hefði grafist undir flóðinu. Fjölmennt lið viðbragðsaðila frá lögreglu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Slysavarnafélaginu Landsbjörg hélt þegar vettvang, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.
Klukkan 14:25 fannst sá sem grófst undir og var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Hinir tveir voru fluttir með sjúkrabifreið á Landspítalann. Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill taka fram að mjög mikil snjóflóðahætta er á áðurnefndum slóðum.