Hugur allra Íslendinga er með íbúum á Flateyri og Suðureyri eftir að þrjú snjóflóð féllu þar undir miðnætti í gærkvöld. Ljóst er að gríðarlegt eignatjón varð í höfninni á Flateyri. Einni stúlku var bjargað úr flóðinu.
Í færslu sem Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður almannavarnarnefndar skrifaði á Facebook kemur hann í orð tilfinningum okkar flestra.
„Hjörtu okkar slá eins og í einum manni þessa stundina. Þau slá með Flateyringum og öllum þeim sem stóðu í ströngu í nótt. Bæði á Flateyri og Suðureyri,“ segir Guðmundur.
Vill Guðmundur koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu að aðgerðum í nótt vegna snjóflóðanna.
„Ég vil koma á framfæri ólýsanlegu þakklæti til allra þeirra sem komu að aðgerðum í nótt og sáu til þess að ekki fór verr. Á Flateyri búa hetjur og þar eigum við björgunarsveit sem engin lýsingarorð ná yfir. Þeirra afrek fæst seint fullþakkað.“
Guðmundur hefur fylgst með aðgerðum í alla nótt og segir fólkið fyrir vestan í öruggum höndum, en atburðir kvöldsins og næturinnar vekja upp sterkar tilfinningar.
„Veður er enn vont og skilyrði erfið. Ég hef þó, í alla nótt, fengið að fylgjast með okkar frábæra fólk sem stendur vaktina og sér til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Við erum í góðum höndum.
Þessir atburðir vekja upp sterkar tilfinningar. Það er skiljanlegt. Nú reynir á samtakamáttinn og samheldnina sem gerir okkur Vestfirðinga að því sem við erum. Sendum hlýja strauma. Það skiptir máli.“