Laugardagur 26. október, 2024
3 C
Reykjavik

Snorri Ásmundsson Krónískur óþekktarangi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Snorri Ásmundsson myndlistarmaður hefur tilkynnt framboð sitt til formanns í Sjálfstæðisflokknum. Hann segist bjóða sig fram fyrir hönd kvenna.

„Já, ég fipaðist aðeins við þessa tilhugsun að þarna sé miðaldra hvítur karlmaður, Guðlaugur, að bjóða sig fram gegn öðrum slíkum, Bjarna, í flokki sem gefur sig út fyrir að hafa pláss fyrir alla og í langri sögu flokksins hefur kona aldrei verið formaður. Þarna eru frambærilegar konur sem allar eru undir hælnum hjá yfirboðara sínum og myndu líklegast aldrei bjóða honum byrginn auk þess sem óskrifaðar reglur og hefðir fylgja þátttöku í stjórnmálastarfi innan flokksins. Ég vildi því pressa á konurnar að bjóða sig fram og gaf það í skyn að ég skyldi bjóða mig fram sjálfur sem kona ef engin önnur kona byði sig fram.“

Ég held ég sé nokkuð góð blanda af konu og karli þegar ég orða þetta svona.

Snorri hefur sagst vera vel tengdur konunni í sér og elska og virða konur meira en karla. Hann segir að sér þyki líka vænt um karlmennskuna en að hún sé samt eitthvað vandræðaleg í samhengi hlutanna í dag. „Ég á marga góða vini og í flestum þessum vináttum er mikil og djúp virðing og djúpur skilningur. Konur eru oftar dýpri, opnari og varnarlausari og ég tengi betur við þær og á oftar í dýpri og meira gefandi samskiptum við þær. Karlmenn eru meira frumstæðari en eru oft meiri verkmenn. Ég held ég sé nokkuð góð blanda af konu og karli þegar ég orða þetta svona.“

Snorri Ásmundsson

 

Kattaframboðið og VHS

- Auglýsing -

Snorri hefur staðið fyrir ýmsum samfélagsgjörningum. Hann bauð sig til dæmis fram til formanns flokksins árið 2009 og stofnaði Kattaframboðið á Akureyri fyrir sveitastjórnarkosningarnar fyrr á þessu ári.

Ég bauð mig þess vegna fram til að bjóða honum og flokknum byrginn.

„Sama var á teningnum þegar ég bauð mig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins 2009. Það er að segja að mér var ofboðið. Mér ofbauð á þeim tíma að þáverandi formaður, Geir H. Haarde, ætlaði að sitja áfram án mótframboðs þrátt fyrir að vera uppvís af ömurlegum aðgerðum eða aðgerðaleysi sem áttu sér stað í hruninu. Ég bauð mig þess vegna fram til að bjóða honum og flokknum byrginn. Svo reyndar dró hann sig í hlé og ég stóð uppi sem frambjóðandi á móti Bjarna Ben og Kristjáni Þór Júlíussyni. Framboð mitt var mjög óvelkomið innan flokksins nema að Áslaug Friðriksdóttir, sem þá var formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, bauð mér að halda framboðsræðu í Valhöll sem ég gerði.“

Hvað vill Snorri segja um Kattaframboðið?

- Auglýsing -

„Það kom líka til vegna þess að mér ofbauð sú ákvörðun bæjarstjórnar að banna lausagöngu katta í sjálfum kattabænum Akureyri svo ég sló til og stofnaði til Kattaframboðsins og litlu munaði að við næðum kettinum Reykjavík inn í bæjarstjórn.“

Framboðið náði ekki manni inn en það voru tvö önnur framboð með lakari kosningu en við.

Síðan var það Vinstri hægri snú 2002.

„Vinstri hægri snú kom til vegna þess að enn einu sinni bauð ég Sjálfstæðisflokknum byrginn með því að tilkynna Birni Bjarnasyni, miðaldra hvítum karlmanni, að ég hygðist bjóða mig fram á móti honum í leiðtogaprófkjöri flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2002. Leiðtogaprófkjörinu var slaufað eftir að allir mótframbjóðendur Björns nema ég hættu við framboð og véku fyrir Birni sem átti að vera einróma leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum. Þeir sem sé tóku ekki mark á mínu framboði og ég brást við með því að stofna nýjan stjórnmálaflokk sem fékk nafnið Vinstri hægri snú eða VHS. Framboðið náði ekki manni inn en það voru tvö önnur framboð með lakari kosningu en við.“

„Pabbi, ekki vera forseti, vertu bara listamaður.“

Svo horfði Snorri til Bessastaða.

„Ári seinna tilkynnti ég framboð mitt til forseta Íslands fyrstur manna til að bjóða Ólafi Ragnari byrginn. Það var ári fyrir forsetakosningar sem ég kom fram í Kastljósinu og tilkynnti framboð mitt. Þetta ár kom ég víða fram sem forsetaframbjóðandinn. Ég var duglegur að kynna framboðið en eftir að fortíð mín sem virkur alkóhólisti var rifjuð upp í DV með fyrirsögninni „Dæmdur dópsali vill á Bessastaði“ fór að vera ansi heitt undir mér og ég orðinn bæði leiður og þreyttur og dró framboðið til baka eftir að elskulega og fallega dóttir mín, þá fimm ára gömul, sagði við mig: „Pabbi, ekki vera forseti, vertu bara listamaður.“

Snorri Ásmundsson

Elskar frelsið

Það var ekki skrifað í skýin að Snorri Ásmundsson yrði forseti Íslands og tæki þátt sem slíkur í hátíðarhöldunum á þjóðhátíðardaginn. Hann setti þó sinn svip á hátíðarhöldin í hittifyrra þegar hann hélt sína eigin fjallkonuræðu af svölum í Pósthússtræti. Hann lauk ekki ræðunni þar sem lögreglan skarst í leikinn.

Þá kom þessi hugmynd til mín að verða fyrsta karlkyns fjallkonan.

„Ég er nú ekkert sérlega hrifinn af hefðum og þessi uppákoma að fjallkonan héldi ræðu 17. júní fannst mér alltaf hjákátleg og þótti hún frekar draga konur niður á eitthvað hallærislegt plan heldur en að þetta væri eitthvað henni til sóma. Svona eins og að feðraveldið segði sem svo „æi, leyfum konunum aðeins að finna fyrir að þær séu ekki ósýnilegar“. Vinur minn á fallega íbúð með svölum sem snýr út á Austurvöll og bauð mér að vera með gjörning á svölunum og þá kom þessi hugmynd til mín að verða fyrsta karlkyns fjallkonan og halda ræðu á hátíðarhöldunum en lögreglan ruddist inn í íbúðina og á svalirnar og stöðvaði uppákomuna.“

Snorri Ásmundsson

Snorra þykir vera gaman að ögra og stuða fólk.

„Ég hef þessa óskiljanlegu þörf til að stuða fólk en þeir sem hafa lesið í stjörnukortið mitt skilja það 100%. Ég er krónískur óþekktarangi og get aldrei hagað mér almennilega mjög lengi. Ég þarf alltaf að brjóta upp mynstur og það hefðbundna. Ég þekki ekki að búa í þægindaramma og ef ég upplifi mig í slíkum ramma þarf ég að brjótast úr honum. Ég elska frelsið og er óttalaus að öllu og það á svo sannarlega við um álit náungans. Ég er sjálfstæður og frjáls jarðarbúi sem vill helst ekki lúta neinum reglum né vera hluti af hópum. Ég er lítil hópsál. Ég þarf ekki haldreipi því ég lifi í traustinu á að vera á mínum farvegi; sem sé blessaður.“

 

Master Hilarion

Snorri var með gjörning í Hríseyjarkirkju fyrir nokkrum árum og fór í leyfisleysi í messuskrúða og ekki voru allir sáttir.

„Trúarbrögð eru bellibrögð og ég á erfitt með öll trúarbrögð en reyni að bera virðingu fyrir trúarlífi fólks. Mér var boðið að taka þátt í listahátíð í Hrísey og ég sagðist vera til í að taka þátt ef ég fengi að halda „performance“ í kirkjunni sem endaði með þessari skemmtilegu uppákomu. Ég fékk kirkjuna og var mér sagt að ég yrði þá að skila henni í sama ástandi og ég fékk hana og ég ákvað að halda messu með mínu sniði fullviss um að Kristur gæfi mér sína blessun sem hann auðvitað gerði.“

Snorri Ásmundsson

Á meðal gjörninga má líka nefna hugleiðslustund í Egilshöll sem var auglýst þannig að dýrlingurinn Hilaríon myndi líkamnast í Snorra.

„Master Hilarion er meistari úr andaheimum sem fær minn líkama stundum lánaðan til að leiða fólk inn í fimmtu, sjöttu og sjöundu víddina. Master Hilarion hefur vísað mér veginn og bjargað mér úr bruna, tekið á móti mér í alheimsvitundinni og sent mig til að hjálpa fólki að skilja tilveruna.“

Snorri Ásmundsson

Hvar fær Snorri allar þessar hugmyndir?

„Þær koma til mín því að ég er leikglaður, frjáls og opinn. Hugmyndir svífa yfir okkur öllum. Við þurfum bara að teygja okkur í þær og nóta þær.“

Vil helst ekki vera flokkaður sem grínisti.

Húmorinn berst í tal.

„Ég hef húmor fyrir lífinu og fólkinu í tilverunni. Mér finnst grín þó eitthvað ódýrt og vil helst ekki vera flokkaður sem grínisti því þótt ég noti oft húmor í framsetningu er alltaf grafalvarlegur undirtónn í öllu sem ég geri.“

Snorri Ásmundsson

Listamaður lífsins

Snorri hefur starfað sem myndlistarmaður í um 30 ár. Hvað vill hann segja um áherslurnar?

„Ég var barn þegar listrænir hæfileikar mínir komu fram þótt ég hafi í raun ekki sætt mig við það fyrr en ég var tilbúinn að gera samninginn við listagyðjuna og helga líf mitt tilveru listamannsins. Hún er ekki praktísk en hún er skemmtileg. Áherslur mínar eru að bregðast við því sem lífið er að segja mér og spegla og þess vegna er ég oft kallaður listamaður lífsins.“

Hann hefur ýmislegt gert á ferlinum og dvaldi í Svíþjóð fyrir nokkrum misserum, nánar tiltekið í skógi í Nössemark.

„Þegar Covidið kom, bauðst mér að passa hús og tvo ketti lengst inn í sænskum skógi í sannkölluðu náttúrubaði með reglulegum heimsóknum frá elgum og bömbum sem eru ævintýralegar skepnur. Þessi dvöl breytti mér til frambúðar. Ég sakna oft skógarins.“

Í vor opnar síðan yfirlitssýning Snorra í Listasafni Reykjanesbæjar.

Snorri er nýkominn til Vínarborgar frá París þar sem hann sýndi með ekki ómerkari mönnum en Man Ray og Keith Haring svo einhverjir séu nefndir. Hann opnar svo einkasýningu í Vínarborg 25. nóvember næstkomandi. Í vor opnar síðan yfirlitssýning Snorra í Listasafni Reykjanesbæjar sem verður yfirlit yfir gjörninga og málverk.

Snorri Ásmundsson

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum eða í skógarbotni og um tíma slóst Snorri við Bakkus. Það er reyndar langt síðan. Brennivín, e-töflur og amfetamín.

„Ég fór fyrst í áfengismeðferð tvítugur að aldri og þurfti nokkrar meðferðir áður en ég varð loksins hamingjusamur, glaður og frjáls edrú alkóhólisti í bata sem ég hef verið í bráðum 22 ár.“

Hann var settur í steininn á þessum tíma. Gæsluvarðhald.

„Ég var dæmdur í tveggja vikna gæsluvarðhald á meðan rannsókn fíkniefnamáls fór fram.“

Ég er einhleypur og frjáls en er að verða tilbúnari að hitta mína heittelskuðu.

Hvernig er Snorri þegar vinnunni og ögruninni sleppir? Hvað með fjölskyldulíf, áhugamál og lísfsstíl?

„Ég er einhleypur og frjáls en er að verða tilbúnari að hitta mína heittelskuðu hver sem hún nú er og hvaðan sem hún kemur.“

Snorri Ásmundsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -