Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Söðlaði um, gerðist eplabóndi og býður nú í ævintýraferð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erla Hjördís Gunnarsdóttir söðlaði um fyrir þremur árum, pakkaði niður í töskur og gerðist eggja- og eplabóndi í smábænum Álavík í Noregi ásamt eiginmanni sínum. Nú býður hún Íslendingum í ævintýralega eplaferð um vesturströnd Noregs.

Aðalmynd: Hér sést Erla (til vinstri) ásamt Ingibjörgu Pétursdóttur, forritara hjá Bændasamtökum Íslands. Í bakgrunni eru dætur Erlu, þær Dagbjört Dís og Glódís Björt.

Kári Kiljan, yngsta barn Erlu, ánægður með uppskeruna í Álavík.

„Ég er skipuleggjandi og fararstjóri og var búin að hugsa þetta nokkrum sinnum, að auglýsa slíka ferð þar sem ég er eggja- og eplabóndi í smábæ í Harðangursfirðinum og hafði tekið eftir miklum áhuga gesta á okkur, sérstaklega á eplaræktinni. Þannig að mín hugmynd er að geta kynnt eplaræktina enn frekar fyrir Íslendingum og leyfa þeim að taka þátt í uppskerunni með því að ganga um eplaakurinn, tína sér nesti í poka og komast þannig í sannkallað návígi við eplin,“ segir fjölmiðlakonan og bóndinn Erla Hjördís Gunnarsdóttir. Erla skipuleggur nú eplauppskeru- og ævintýraferð til Noregs dagana 3. til 7. október. Það eru þó ekki aðeins eplin sem spila stórt hlutverk í ferðinni.

„Að auki ætlum við að heimsækja bændur sem selja beint frá býli, heimsækja eplavínsverksmiðju, stoppa á ekta norsku sveitakaffihúsi og fá þjóðlegar veitingar, kynnast jarðgangna- og brúargerð á heimsmælikvarða, skoða tignarlega norska fossa, fá kynnisferð um Oleana-prjónaverksmiðjuna sem er ein af fáum fataframleiðendum í Noregi sem enn framleiða allar sínar vörur í heimalandinu, skoða stafkirkju í Bergen og kynnast borginni betur ásamt fleiru,“ segir Erla full tilhlökkunar og bætir við: „Þetta verður sannkölluð ævintýraferð á vesturströnd Noregs, nánar tiltekið í kringum Bergen og Harðangursfjörðinn.“

500 eplatré og 7500 varphænur

Erla telur að ferð sem þessi höfði til Íslendinga þar sem lítið sé um skipulagðar ferðir á milli þessara nágrannalanda. Sjálf er hún hugfangin af Noregi eftir að hún og fjölskylda hennar, sem telur eiginmann og þrjú börn stökk ofan í djúpu laugina fyrir þremur árum síðan.

„Við fjölskyldan fluttum hingað fyrir þremur árum af hreinni ævintýramennsku og við hjónin ákváðum að gerast bændur sem við höfðum ekki prófað áður heima. Þetta tækifæri kom í gegnum vinnuna mína hjá Bændasamtökum Íslands og eftir dágóða umhugsun ákváðum við að slá til og prófa því við vissum að þetta tækifæri myndi ekki koma aftur,“

segir Erla og sér ekki eftir því að hafa látið slag standa þegar færi gafst.

- Auglýsing -

„Við erum hér í smábænum Álavík sem telur nálægt þúsund íbúum og er sveitabærinn staðsettur í miðju bæjarins. Við erum með 7500 varphænur og um 500 eplatré og með okkar eigin rekstur í kringum búskapinn. Við prófuðum einnig að rækta hindber í gróðurhúsi en það var ekki arðbært svo við snerum snarlega út úr því. Hér var okkur rosalega vel tekið og hefur gengið mjög vel með börnin okkar þrjú svo við sjáum ekki eftir að hafa stokkið á þetta tækifæri, við verðum öll reynslunni ríkari eftir þessa upplifun.“

Ekki leiðinlegt útsýni hjá bændunum í Álavík.

Hjartað slær á Íslandi

Hún segir þó að Ísland togi enn í fjölskylduna, enda mikið og stórt bakland sem þau eiga þar af ættmennum og vinum.

„Við litum alltaf á þetta sem tímabundið ævintýri og gerum enn og hjartað slær óneitanlega heima á Íslandi. Við tökum eitt ár í einu, aðallega vegna þess að hænurnar eru rétt rúmt ár inni í húsi og síðan er þeim skipt út. Svo það verður að koma í ljós hvað við gerum, hér er ákaflega gott að vera en heima er best og fyrir okkur er það Ísland.“

- Auglýsing -

Þeir sem vilja fræðast meira um ferðina geta haft samband við Erlu í gegnum netfangið [email protected] eða í síma 563 0320.

15 tonn af eplum

Erla og fjölskylda hennar rækta 15 tonn af eplum á ári en í Harðangursfirði eru kjöraðstæður til ávaxtaræktunar, sérstaklega epla-, peru-, plómu- og kirsuberjaræktunar.

Fjölskyldan ræktar nokkrar mismunandi tegundir af eplum.

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -