Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Sofandi að feigðarósi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Staða íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, er viðfangsefni forsíðugreinar Mannlífs að þessu sinni. Þrátt fyrir „góðærið“ margumtalaða og ferðamannastrauminn sem það byggir á er staða þeirra viðkvæm og nokkuð ljóst að til þess að bjarga þeim verða stjórnvöld að grípa inn í, þau eru einfaldlega of stór til að hægt sé að leyfa þeim að falla.

Hlutdeild þeirra í flutningi ferðamanna til landsins er 80-85% og það gefur augaleið að með falli þeirra væri stoðunum kippt undan ferðaiðnaðinum á Íslandi í einu vetfangi. Hið margumtalaða „góðæri“ stendur og fellur með áframhaldandi rekstri þeirra.

Í greininni kemur einnig fram að stjórnvöld séu í viðbragðsstöðu og óformlegt samkomulag sé um það að grípa inn í ef ekki tekst að tryggja rekstrargrundvöll flugfélaganna, einkum WOW air. Það vekur hins vegar furðu og óþægileg hugrenningatengsl hversu seint stjórnvöld koma að borðinu. Það hefur verið ljóst lengi í hvað stefndi en að gömlum og góðum íslenskum sið hefur verið horft fram hjá því og gripið til hins sígilda „þetta reddast“ hugsunarháttar, að því er virðist. Viðvaranir hagfræðideildar Landsbankans fyrir ári síðan virðast hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá stjórnvöldum og það var ekki fyrr en nú á vordögum, þegar í óefni var komið, sem þau tóku við sér. Hljómar óhugnanlega kunnuglega. Við höfum greinilega ekkert lært á tíu árum.

„ … ef hér á einhvern tíma að verða stöðugleiki og raunverulegt góðæri verða Íslendingar að læra af mistökum sínum og temja sér aðra siði í stjórnum fjármálakerfisins.“

Sofandahátturinn gagnvart viðvörunarmerkjum í aðdraganda hrunsins 2008 hefur verið gagnrýndur harðlega og íslensk stjórnvöld þess tíma hlotið mikið ámæli fyrir að leyfa hlutunum að þróast eins langt út í kviksyndið og þeir gerðu þá. Það virðist gleymt og grafið. Íslendingar berja sér á brjóst og gorta af ótrúlegum viðsnúningi efnahagslífsins eftir hrun en virðast horfa fram hjá þeirri staðreynd að sá viðsnúningur byggðist að stærstum hluta á aukningu ferðamannastraumsins til landsins. „Sjáið þið ekki veisluna“, er enn leiðarstef Íslendinga í fjármálum og það virðist engum detta í hug að til þess að tryggja áframhaldandi veislu þarf að huga að því á hverju sú veisla byggir. Það þarf að fjármagna veisluföngin og koma þeim í hús annars verða þau fljótlega á þrotum.

Erum við þá á leiðinni í annað hrun? Og vegna nákvæmlega sama andvaraleysis og síðast? Nei, sem betur fer virðist slíkt ekki í uppsiglingu í þetta sinn. Flugfélögin eru einfaldlega of mikilvæg til að þeim verði leyft að rúlla en lærdómurinn sem draga má af því hversu langt þrengingum þeirra hefur verið leyft að ganga er engu að síður skýr: ef hér á einhvern tíma að verða stöðugleiki og raunverulegt góðæri verða Íslendingar að læra af mistökum sínum og temja sér aðra siði í stjórnum fjármálakerfisins. Þetta reddast nefnilega ekki af sjálfu sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -