Fjölskylda á Flateyri hefur orðið fyrir endurteknum áföllum en bæði fjölskyldufaðirinn og dóttir hafa bæði fengið alvarlegar heilablæðingar.
Katrín Björk Guðjónsdóttir var 21 árs háskólanemi þegar hún fékk fyrst heilablæðingu og blóðtappa í kjölfarið. Hún lamaðist á hægri hlið líkamans en sjö mánuðum síðar fékk hún aðra og stærri heilablæðingu og gat þá ekkert hreyft nema annað augað. Eftir ýtarlegar rannsóknir fannst hjá henni gen sem veldur arfgengri heilablæðingu.
Nýlega dundi yfir fjölskylduna enn annað áfallið þegar Guðjón, faðir hennar fékk einnig heilablæðingu og er nú bundinn við hjólastól. Hann er á sjúkrahúsinu á Ísafirði og getur ekki komið heim enda ófær í að ferðast á milli hæða. Heiða, móðir Katrínar er með dóttur sína heima og hugar að hennar daglegu þörfum
Katrín hefur verið mikið í sviðsljósinu og hefur vakið mikinn áhuga með lífsgleði sinni og baráttuhug. Hún heldur úti bloggsíðu þar sem hún segir frá sínu daglega lífi, ásamt því eru rúmlega 4500 manns sem fylgja henni á Instagram. Hún ætlar sér að ná bata og hefur tekið stórkostlegum breytingum á sex árum þegar hún vaknaði lömuð á sjúkrahúsinu. Búið er að stofna styrktarreikning fyrir fjölskylduna.
Fanney Finnsdóttir setti inn færslu á Facebook síðu sinni og hvetur fólk til að styrkja fjölskylduna á þessum erfiðu tímum:
„Ef ykkur langar að láta gott af ykkur leiða langar mig að benda ykkur á Styrktarsjóð Katrínar Bjarkar. Gott fólk sem þarf á stuðningi að halda.
Hvert áfallið á fætur öðru hefur dunið yfir hjónin Guðjón og Heiðu á Flateyri. Áfallahrinan hófst með heilablóðfalli Katrínu Bjarkar dóttur þeirra árið 2014 og má segja að öll tilvera þeirra hafi snúist á hvolf upp frá því. Nú er svo komið að Guðjón dvelur á spítalanum á Ísafirði og er bundinn við hjólastól eftir heilablæðingu og á fyrir höndum langt bataferli. Heima er Heiða með Katrínu Björk og getur ekki tekið Guðjón heim og sinnt honum líka, enda kemst hann ekki á milli hæða.
Enginn þarf að vera í vafa að fjárhagur þeirra er ekki upp á marga fiska svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Fyrir nokkrum árum var stofnaður styrktar sjóður Katrínar Bjarkar.
Við sem stóðum að stofnun styrktar sjóðsins viljum nú reyna að leita eftir frekari stuðningi hjá ykkur kæru vinir. Það munar um allt. Vegna þess að sjóðurinn er nefndur í höfuðið á Katrínu Björk, þá viljum við að söfnunin núna verði miðuð við að styrkja Katrínu, Guðjón og Heiðu og að notaður yrði sami bankareikningurinn, nr. 0515-14-410407, KT. 470515-1710, en við myndum gjarnan vilja að styrkir sem núna yrði safnað yrðu merktir t.d. „Öll þrjú“ í skýringum, þannig að féð myndi augljóslega verða ráðstafað til þeirra allra.
Við sem höfum stýrt þessum sjóði vitum aldrei hver styrkir og hversu mikið, því skv. skipulagsskrá sjóðsins þá er umsjón með reikningnum í höndunum á Ómari Kristjánssyni lögg. endurskoðanda og hann tryggir að fjármunum sé ráðstafað inn á reikning Katrínar, þegar við biðjum hann um það en án frekari afskipta okkar, og núna yrði þeim ráðstafað með skýringu á að fjármunirnir eigi að renna til þeirra þriggja.“
Ef þig langar til að styðja litlu fjölskylduna á þessum afar erfiðu tímum þá finnur þú reikningsupplýsingar hér fyrir neðan:
Reikningur: 0515-14-410407
Kennitala: 470515-1710