Sögulegt óveður er nú í kortunum og funda Almannavarnir með Veðurstofunni og Vegagerðinni vegna þess. Þá er verið að skoða hvort biðlað verði til skóla og vinnustaða að hafa lokað á morgun vegna veðurs.
Almannavarnir vilja að sem fæstir séu á ferðinni svo hægt sé að ryðja göturnar eftir að storminn hefur lægt.
Í viðtali við Vísi sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum að fólk sé hvatt til þess að vera heima fyrir og fylgjast með fjölmiðlum.
„Það er bara það mikil snjókoma með þessu að það má búast við að það verði ófært víða, sem tekur bara tíma að hreinsa. Við höfum séð það áður að það tefur mjög mikið fyrir svoleiðis ef það er mikið af bílum sem fara af stað, þannig að við bara hvetjum alla til að bíða heima í fyrramálið og sjá hvernig staðan verður“.
Sagði Víðir að fólk geti búast við því að lausamunir munu fjúka líkt og í óveðrinu árið 2020, en þá var síðast gefin út rauð veðurviðvörun á höfuðborgarsvæðinu.