Líflegar umræður hafa skapast á samfélagsmiðlum um meinta fíkniefnanotkun söngvara ítölsku sveitarinnar Måneskin sem sigraði Eurovision í Rotterdam í gærkveldi.
Á upptöku sem náðist á Damiano David virðist hann halla sér yfir borð óg túlkuðu sumir það sem svo að hann væri að sjúga eitthvað upp í nefið og var líkum að því leitt að þar væri um kókaín að ræða. David hefur harðneitað ásökunum þess efnis og sagði félaga sinn hafa brotið glas og hafi hann verið að sópa glerbrotum í burtu.
Myndskeiðið hefur farið sem eldur í sinu um internetið og sýnist sitt hverjum, ekki síst Íslendingum, sem hafa grínast mjög með myndskeiðið. Thomas Raggi, gítarleikari sveitarinnar, staðfesti við blaðamenn að hann hefði vissulega brotið glas og ekki hefði verið um fíkniefnaneyslu að ræða. David bað blaðamenn í guð lifandi bænum að dreifa ekki sögusögnum um fíkniefnaneyslu í keppninni.
Hann mun samt hafa verið skikkaðiur í fíkniefnapróf við komuna til Ítalíu fyrr í dag.
„Við erum meðvituð um vangaveltur varðandi myndbandsupptöku af ítölsku sigurvegurunum úr Græna herberginu í gær. Sveitin hefur harðneitað ásökunum um fíkniefnanotkun og söngvarinn sem um ræðir hefur boðist til þess að gangast undir fíkniefnapróf þegar hann kemur heim,“ segir í yfirlýsingu frá aðstandendum keppninnar.
Ennfremur hefur verið staðfest að glas hafi vissulega brotnað á borði Ítalíu í Græna herberginu en myndbandsupptakan mun verða tekin til nánari skoðunar á næstu dögum.