Ekki hefur mikið farið fyrir blessaðri sólinni á sunnanverðu landinu þetta sumarið og grámi, lágt hitastig og rigning hefur sem dæmi verið ríkjandi á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið.
Í dag er því spáð að sólin muni láta sjá sig á sunnan og vestanverðu landinu svo það er um að gera fyrir fólk að notfæra sér það til hins ýtrasta. Því miður virðist þetta einungis vera skammgóður vermir því samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands verður orðið skýjað á morgun, sunnudag.
Nú er bara að vona að spáin rætist svo fólk á sunnanverðu landinu geti notið ylsins frá þeirri gulu sem hefur vart látið sjá sig það sem af er sumri. Mannlíf minnir alla á að nota sólarvörn og á það að það er eiginlega skylda að grilla í dag.