- Auglýsing -
Verkalýðsbaráttukonan Sólveig Anna Jónsdóttir sendir Friðriki Jónssyni formanni BHM tóninn í færslu á Facebook-síðu sinni:
„Þegar söngurinn hefst frá formanni BHM og öðrum háttsettum aðilum íslenskrar stéttskiptingar um að mikilvægasta úrlausnarefni á vinnumarkaði sé að meta menntun til launa, að ójöfnuður á milli fólks sé eftirsóknarverður því hann hvetji fólk til mennta-dáða, að aldrei verði aftur samið um krónutöluhækkanir því þær komi sér ekki vel fyrir háskólamenntað hálaunafólk en virki alltof vel fyrir einhverjar ómenntaðar kvensur, geriði mér og öðrum annars flokks ómenntuðum kvensum þá greiða: Staldriði við og hugsið um það hvers vegna í ósköpunum það sé eftirsóknarvert að refsa ómenntuðu fólki og börnum þeirra með tilveru markaðri af efnahagslegum skorti,“ segir Sólveig Anna og bætir við:
„Ef að við trúum því að samfélag jöfnuðar sé betra en samfélag ójöfnuðar, ef að við trúum því að allt fólk sé jafn rétthátt, ef við trúum því að öll börn séu mikilvæg, afhverju ættum við þá að samþykkja sem náttúrulögmál að þau sem gengið hafa menntaveginn séu í eðli sínu endalaust meira virði en þau sem gerðu það ekki. Og að hver dagur hinna ómenntuðu eigi að fela í sér refsingu fyrir “glæpinn” að vera ekki með háskólamenntun.“
Hún segir einnig að „það er oft gott, gaman og gagnlegt fyrir fólk að feta menntaveginn. En samfélagslegt samþykki á gagnsemi menntunnar á ekki að leiða til samþykkis á grimmri efnahagslegri stéttskiptingu, þar sem að sumar fjölskyldur eru dæmdar til að lifa við viðvarandi fjárhagsáhyggjur sem hafa svo ömurleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu.“
Sólveig Anna nefnir að „ef að við tryggjum ómenntuðu fólki og afkvæmum þeirra góða og mannsæmandi afkomu erum við ekki bara að bæta líf þeirra heldur gerum við allt samfélagið okkar betra.
Ísland er fullt af ómenntuðum konum sem eru þó algjörlega ómissandi. Vinna þeirra heldur til dæmis uppi umönnunarkerfunum okkar. Hún knýr áfram hjól atvinnulífsins. Án vinnu þeirra væri hér ekki hægt að reka það sem samfélag sem við þekkjum. Sameinumst um að minnka áhyggjur þeirra. Gerum það að forgangsverkefni að gefa þeim og öðru ómenntuðu fólki líf sem snýst ekki um að þrauka frá einni útborgun til þeirrar næstu.“