Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Sólveig fékk Blóðdropann fyrir Fjötra: „Varð barnslega glöð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Pálsdóttir hlaut í dag Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir bók sína Fjötra. Verðlaunin eru veitt af Hinu íslenska glæpafélagi fyrir bestu íslensku glæpasögu liðins árs og sú bók sem valin er verður jafnframt framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins. Það var bókaútgáfan Salka sem gaf bókina út.

Sólveig er í vonum í skýjunum með viðurkenninguna:

„Ég viðurkenni það fúslega að ég varð barnslega glöð þegar mér var tilkynnt um að Fjötrar hefði verið valin besta glæpasagan 2019,“ segir hún. „Tuttugu bækur komu til greina og þar á meðal flottir höfundar sem ég ber virðingu fyrir. Í dag þegar ég tók á móti Blóðdropanum varð ég dálítið meyr en jafnframt mjög stolt. Svo verð ég að nefna að ég hafði ákaflega gaman að rannsóknarvinnunni fyrir Fjötra og ekki síður að skrifa bókina.“

Fjötrar

Hvaða þýðingu hafa þessi verðlaun fyrir þig sem höfund?

„Þau eru mikil viðurkenning og hvatning til að halda áfram að skrifa bækur. Mikilvægi bóka og lesturs er gríðarlegt í mínum huga. Á síðustu árum hefur dregið úr lestri en nú sé ég ýmis merki um að þetta sé að breytast. Á meðan að Covid-19 gekk yfir landið fékk ég þó nokkur skilaboð frá fólki sem hafði verið að lesa bækurnar mínar og var jafnframt að kynnast eða enduruppgötva hvað lestur bóka veitir mikla ánægju. Það fannst mér ákaflega gleðilegt. Að fá Blóðdropann þýðir það líka að Fjötrar verða framlag Íslands til Glerlykilsins sem eru norrænu glæpasagnaverðlaunin. Ég vona bara að það takist að þýða bókina í tæka tíð,“ segir Sólveig.

Fáum við meira af Guðgeiri og félögum fyrir jólin?

- Auglýsing -

„Reyndar ekki en væntanlega fyrir jólin 2021. Ég var byrjuð að draga upp nýja glæpasögu þegar að Covid-19 skall á,“ segir Sólveig. „Ég missti einbeitinguna og þegar ég reyndi að koma mér aftur að verki fannst mér erfitt að vera að hugsa upp flóknar glæpaféttur þegar heimurinn væri á hvolfi. Ég ákvað því að hvíla mig á glæpunum og geyma þessar hugmyndir til betri tíma. Þá tók að sækja á mig annað efni og allt öðruvísi. Ég byrjaði að skrifa og fann að mér leið vel með það sem ég var að gera. Vinnuheitið er Klettaborgin og byggir á bernskuminningum mínum. Hún hefst þegar sem ég er fimm ára gömul og nýflutt til Íslands en pabbi minn vann í utanríkisþjónustunni. Ég flaug heim frá Stokkhómi með barnapíunni og var með henni stuttan tíma á Akranesi. Síðan fór ég á Bessastaði þar sem móðurafi minn og amma áttu heima því afi minn Ásgeir var forseti. Um mitt sumar flaug ég austur til Hornafjarðar í Lónið sem var á þeim tíma ákaflega einangruð sveit. Þar var ég næstu sex sumur hjá einstaklega góðu og eftirminnilegu fólki. Sagan flakkar fram og tilbaka í tíma og persónugalleríið er ákaflega fjölbreytt. Það verður fróðlegt að vita hvernig lesendur taka þessum útúrdúr hjá glæpasagnahöfundinum.“

Sólveig vill nota tækifærið til að þakka sínum tryggu lesendum, sem vafalaust mun fjölga með þessari viðurkenningu.

„Í lokin langar mig til að nota tækifærið og þakka lesendum mínum innilega fyrir að hafa tekið bókunum mínum svona vel.“

- Auglýsing -

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Niðurstaða dómnefndar er sú að Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur sé verðskuldaður sigurvegari að þessu sinni. Í sögunni fléttar Sólveig á frumlegan og öruggan hátt saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmálum fjölskyldna. Ljóst er frá fyrstu síðu að lesandi er í öruggum höndum höfundar sem hefur góð tök á öllum þráðum fléttunnar og hefur vandað til verks. Frásögn Sólveigar er í senn spennandi, áhugaverð, kímin og sorgleg. Afraksturinn er bók sem lætur engan ósnortinn.“

Dómnefnd skipuðu Páll Kristinn Pálsson, formaður, Helga Birgisdóttir og Kristján Atli Ragnarsson.

Mannlíf óskar Sólveigu hjartanlega til hamingju með Blóðdropann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -