Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Sólveig Guðrún Hannesdóttir Engu í lífinu ætti að taka sem sjálfsögðum hlut

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér þykir afskaplega vænt um MR en ég hef kennt þar líffræði síðustu 14 árin og hef átt farsælt og ánægjulegt samstarf við öflugan kennarahóp skólans. Mig langaði líka að leggja mitt af mörkum til að starf skólans styrkist á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Svo eru það  forréttindi að fá að vinna alla daga með ungu fólki og ég hlakka mikið til að vinna með nemendum og kennurum skólans í nýju hlutverki,“ segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, nýráðinn rektor Menntaskólans í Reykjavík.

Á hvað vill Sólveig leggja áherslu í stöðu rektors? Eru einhverjar nýjungar fram undan?

Áherslur mínar eru að hlúa að og efla sérstöðu skólans.

„Framhaldsskólar landsins eru margir og fjölbreyttir. Þeir hafa flestir sína sérstöðu og styrkleika og mér finnst mikilvægt að halda í fjölbreytileikann svo hægt sé að bjóða sem flestum nám á framhaldsskólastigi við sitt hæfi. MR er bóknámsskóli með aðaláherslu á að búa nemendur undir áframhaldandi nám. Áherslur mínar eru að hlúa að og efla sérstöðu skólans, sem er öflugt mála- og raungreinanám, en jafnframt að bjóða upp á heilsteypt nám í deildum með fjölbreytt úrval valgreina sem fanga áhugasvið nemenda.

Félagslíf nemenda er öflugt í MR. Í skólanum er ekki eitt skólafélag heldur tvö: Skólafélagið og Framtíðin. Einnig eru tvö leikfélög, annað gamalgróið, elsta leikfélag landsins, Herranótt, og hitt yngra, Frúardagur. Leikfélögin setja upp sitthvort leikverkið hvort misserið. Það er alltaf gaman að sjá nemendur blómstra í því sem þau hafa brennandi áhuga á. Menntaskólanemendur eru með eindæmum hugmyndaríkir og drífandi hópur og mig langar til að samstarfið við félögin í skólanum sé sem allra best og að rektor geti stutt við virkt og skemmtilegt félagsstarf.“

Hvað vill Sólveig segja um misjöfn tækifæri fólks til að komast í framhaldsskóla og í þá skóla sem það vill fara – svo sem innflytjendur sem flosna sumir hverjir upp úr skóla. Hvað þarf að gera til að jafna tækifæri ungs fólks til náms?

Auðvitað þarf að bregðast við aukinni þörf á íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál.

„Í MR, eins og í öðrum framhaldsskólum landsins, hefur aukist aðsókn nemenda með annað móðurmál en íslensku. Einnig koma nemendur inn í skólann sem hafa búið stóran hluta ævinnar í öðru landi og hafa ekki fengið mikla íslenskukennslu fram að því. Tekið er tillit til þessara þátta í námi og prófum og í vetur buðu eldri nemendur upp á stuðning við yngri nemendur í skólanum en auðvitað þarf að bregðast við aukinni þörf á íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál. Nemendur sem sækja í MR eru margir hverjir gríðarlega duglegir námsmenn og standa sig framúrskarandi vel í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Auðvitað er líka stór hópur sem þarf aukið utanumhald eða sérþjónustu og þá er bekkjarkerfi oft kostur með umsjónarkennara sem fylgist með umsjónarnemendum sínum og stoðþjónustu skólans; góðum námsráðgjöfum og hjúkrunarfræðingi sem fylgja skjólstæðingum sínum vel eftir.“

- Auglýsing -

Sólveig Guðrún Hannesdóttir

Tolleringar og dimissio

MR er gamall skóli sem á sér sögu; hvaða máli skiptir fyrir Sólveigu að verða rektor í slíkum skóla? „Þegar ég hóf nám í MR heillaðist ég af aðalbyggingu skólans, Gamla skóla. Andinn þar fannst mér hlýr og notalegur og finnst enn. Mér fannst líka gaman að langri sögu skólans og hefðum. Skólabragur er góður og finn ég fyrir því þegar ég hitti útskrifaða nemendur á förnum vegi eða mæti afmælisárgöngum í árlegu júbílantaballi skólans að margir bera sterkar taugar til skólans þó áratugir líða frá útskrift.“

- Auglýsing -

Hvaða saga / hefð í skólanum finnst Sólveigu vera áhugaverðust / merkilegust?

„Mér finnst tveir skemmtilegustu dagar ársins vera tolleringar nýnema og dimissio í lok kennslu á vorin. Nýnemar skólans eru boðnir velkomnir með athöfn og tolleringum úti á túni skólans. Dagurinn einkennist af gleði og jákvæðri orku og í lokin er nýnemum boðin súkkulaðikaka og mjólk. Við dimissio kveðja sjöttu bekkingar kennara eftir árin sín í MR og halda út í próflestur. Þetta er oft tregablandinn dagur því þó galsi og gleði fylgi dimmiterendunum finnst mörgum erfitt að kveðja skólann sinn eftir þrjú skemmtileg ár.“

Nám á að vera krefjandi og ögrandi en líka skemmtilegt.

Sólveig er spurð hvað hún hafi í rauninni lært af því að vera kennari í öll þessi ár og hvaða áhrif það hafi haft á hana.

„Það er afskaplega gefandi að vinna náið með ungu fólki. Mér finnst líffræði skemmtileg og ég vona að ég hafi náð að smita einhverja nemenda minna af áhuga á faginu. Mér finnst alltaf jafngaman að sjá og upplifa nemendur blómstra og finna sig í því sem þeir hafa áhuga á. Annað sem hægt er að læra af menntaskólanemum er að taka sig ekki of alvarlega. Nám á að vera krefjandi og ögrandi en líka skemmtilegt.“

 

Doktor í ónæmisfræði

Eftir útskrift frá Háskóla Íslands með B.S.-próf í líffræði fór Sólveig í doktorsnám í ónæmisfræði við University College í London. „Ég ber sérstakar taugar til London og þar átti ég góðan og þroskandi tíma í námi við þennan virta háskóla. Námið á Íslandi bjó mig vel undir framhaldsnámið í Bretlandi en námið var krefjandi og reyndi á þrautseigju og þol. Eftir dvöl við nám erlendis mynduðust tengsl við samstarfsfólk alls staðar að úr heiminum sem haldast enn í dag. Ég tel að öllum sé hollt að búa í öðru landi um hríð og kynnast öðrum menningarheimum en sínum eigin.“

Vísindi og rannsóknir finnst mér heillandi.

Að loknu doktorsnámi vann Sólveig við vísindarannsóknir á ónæmisfræðideild Landspítalans með öflugum hópi vísindamanna undir stjórn Ingileifar Jónsdóttur prófessors. „Vísindi og rannsóknir finnst mér heillandi og þar kynntist ég líka kennslu en ég kenndi nokkra áfanga í ónæmisfræði í stundakennslu við HÍ. Kennslan höfðaði sterkt til mín og ég ákvað að taka kennsluréttindapróf við HÍ og sækja um kennarastarf við MR. Ég nýt þess að kenna og ég tel að fáir endist í því starfi til langframa nema þeir njóti þess.“

Sólveig Guðrún Hannesdóttir

Gönguferðir um landið

Sólveig segist helst kjósa að verja frítíma sínum með fjölskyldu og vinum.

„Ég á stóra fjölskyldu en við maðurinn minn, Jónas Páll Jónasson, eigum fimm börn saman.  Við útskrifuðum tvö þau elstu úr framhaldsskólum í fyrravor, dóttur mína úr MR og stjúpson úr Borgarholtsskóla. Miðbarnið útskrifaðist úr grunnskóla í vor og yngstu tveir drengirnir eru níu og sjö ára. Við ferðumst mikið saman innan- og utanlands og njótum samvista í sumarbústað fjölskyldunnar í Þingvallasveit auk þess sem við fylgjum krökkunum á ýmis íþróttamót árið um kring í fótbolta og sér í lagi í körfubolta.

Í fyrrasumar gengum við á Herðubreið.

Við hjónin eigum ýmis sameiginleg áhugamál, enda bæði líffræðingar að mennt, þó á ólíkum sviðum, og höfum gaman af gönguferðum um landið. Í fyrrasumar gengum við á Herðubreið í skemmtilegum hópi og var sú lífsreynsla ógleymanleg. Ég hef líka verið svo heppin sitja í stjórn félags líffræðikennara, Samlíf, og fá að taka þátt í ótal sumarnámskeiðum með þeim, nú síðast í síðustu viku í ferð með Þóru Ellen Þórallsdóttur prófessor sem kenndi okkur plöntugreiningar í Núpstaðaskógi og sýndi okkur tilraunareiti í sjálfsprottnum birkibreiðum á Skeiðarársandi.“

 

Njóta hvers dags

Hvaða lífsreynsla hefur mótað nýja rekorinn?

Þá horfinn inn í heim Alzheimersjúkdómsins.

„Ekkert eitt í lífinu hefur mótað mig heldur er ég þeirrar skoðunar að svo lengi lærir sem lifir.  Ég hef átt því láni að fagna að hafa einstaklinga í kringum mig sem hafa hvatt mig og stutt í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur en það er alls ekki sjálfgefið. Faðir minn, Hannes Pétursson, prófessor í geðlækningum, var vísindamaður og fræðimaður í sinni grein og smitaði okkur systur af sínum áhuga. Ég leitaði mikið til hans um ráð og stuðning en hann féll frá fyrir ári síðan, þá horfinn inn í heim Alzheimersjúkdómsins; lífsreynsla sem hefur kennt mér og okkur í kringum hann að engu í lífinu ætti að taka sem sjálfsögðum hlut og njóta hvers dags sem gefst.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -