Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sólveig lætur Björn heyra það: „Aumkunarverð kvenfyrirlitning“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hjólar í Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra og sakar hann um andlegt ofbeldi.

„Það er einhver partur af mér orðinn vanur þessu, reyndar hefur hann dregið aðeins í land, til dæmis með þær ásakanir að ég hafi komist til valda í Eflingu til að misnota sjóðina, en þessa strengjabrúðu pæling er mjög lifandi og mér finnst þetta bara voðalega leiðinlegt. Ég er nú ekki eitthvað viðkvæmt blóm, en mér finnst þetta hrikalega ómálefnalegt og rætið og bara sjúklega yfirlætislegt hvernig sem á það er litið. Og ef ég tek mig í burtu sem persónu þá stendur eftir einhver einkennilega köld sýn á konur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um ummæli Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Á föstudag birti Björn pistil á heimasíðu sinni undir yfirskriftinni Skuggastjórn ASÍ þar sem hann segir Sólveigu Önnu í raun vera strengjabrúðu tveggja karla, Gunnars Smára Egilssonar og Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar. Tilefnið skrifanna er viðtal við Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem birtist í DV síðastliðinn föstudag. Með hliðsjón af því segir Björn orðrétt að Drífa vilji „knýja fram öfgafull markmið í anda Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sósíalistans í formennsku Eflingar-stéttarfélags, strengjabrúðu Viðars Þorsteinssonar og Gunnars Smára Egilssonar, höfuðsmiða Sósíalistaflokks Íslands.“ Þar sé skuggastjórn ASÍ.

Í samtali við Mannlíf segir Sólveig Anna að þessi ummæli Björns lýsi kvenfyrirlitningu. „Það eru risavaxin hugmyndafræðileg pólitísk átök í gangi í þjóðfélaginu og af þeim sökum ætti fólk að rífast út fra hugmyndafræðilegri sýn. Ég þoli það vel og fagna því og þess þá heldur finnst mér þessi ummæli lýsa ótrúlega aumkunarverðri kvenfyrirlitningu,“ segir hún.

„Ég ætla ekki að breytast. Það sem ég ætla að gera er að berjast fyrir því að kven-hatandi mennirnir með ljótu orðin og hugsanirnar missi völdin sín.“

Í kjölfar skrifa Björns hefur Sólveig Anna birt færslu á Facebook þar sem hún segist meðal annars hafa hugsað hvað það sé undarlegt að þrátt fyrir ævi hennar og fyrri störf skuli hún samt ekki vera neitt nema strengjabrúða í augum sumra manna, gerð út af karlmönnum.

„Og ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að það er partur af mér sem verður dapur þegar þessi orð eru notuð. Einhver konu-partur sem hugsar um konur sem hafa lifað, gert, sagt, hugsað en samt aldrei fengið að verða neitt annað en „strengjabrúður“ í hugum valdamikilla manna. Þessi konu-partur veit og viðurkennir að svona orðfæri er andlegt ofbeldi. Notað til að kúga og þagga. Notað til að særa og lítillækka,“ segir Sólveig Anna á Facebook.

- Auglýsing -

„Ég veit að ég er ekki strengjabrúða eins né neins og ég veit að það er fráleitt að halda því fram. Ég veit líka að því verður aldrei hætt, skrifar hún en játar að henni sárni að vera kölluð strengjabrúða.

„Ég upplifi vanmátt þegar það gerist. Mér finnst leiðinlegt að mamma mín sjái og heyri svona tal. Mér finnst leiðinlegt að dóttir mín sjái það og heyri. Og mér finnst það leiðinlegt mín sjálfrar vegna; leiðinlegt vegna þeirrar stelpu sem ég var, ungu konu og nú fullorðnu konu.“

Segist Sólveig Anna hins vegar ekki ætla að bæla niður tilfinningar sínar. Tilfinningar kvenna hafi verið notaðar gegn þeim og það hafi verið „verkefni“ kvenna að „láta“ ekki særa sig.

- Auglýsing -

„Ég tel að það sé partur af þeirri kven-fyrirlitningu sem enn grasserar. Partur af uppreisn okkar gegn feðraveldinu er að leyfa ekki að tilfinningar okkar séu notaðar gegn okkur. Við rísum upp gegn þeirri misnotkun með því að viðurkenna tilfinningar okkar fyrir okkur sjálfum, og láta aðra sjá þær og heyra.“

Segir hún kven-fjandsemina leynast víða og baráttan gegn henni sé þess vegna háð úti um allt, „líka inn í okkar eigin heilum og hjörtum,“ skrifar hún og segist oft hafa fyrirlitið sjálfa sig fyrir að vera „of viðvæm“. „En ég er hætt því. Það eru kvenréttindi mín að verða leið. Ég ætla ekki að breytast. Það sem ég ætla að gera er að berjast fyrir því að kven-hatandi mennirnir með ljótu orðin og hugsanirnar missi völdin sín. Það er barátta sem er þess virði að taka þátt í.“

Hægt er að lesa færslu Sólveigar Önnu í heild sinni hér að neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -