Tvær af stærstu stjörnum íslenskrar rappsenu, JóiPé og Króli, komu aðdáendum sínum í opna skjöldu í vikunni er þeir sendu frá sér nýja plötu í skjóli nætur.
Platan birtist á streymisveitunni Spotify aðfaranótt fimmtudags og ber hún nafnið 22:40-08:16. Tvíeykið hafði ekkert gefið í skyn að ný plata væri væntanleg né heldur birtist nokkur tilkynning eftir að platan var komin út. Aðspurður um titil plötunnar svarar Króli því til að þetta sé sá tími sem platan varð til á, það er að upptökur hófust að kvöldi til klukkan 22:40 og þeim lauk 08:16 að morgni næsta dags. Það sama á við um tónsmíðarnar sjálfar, lögin vísa til þess klukkan hvað þau voru tilbúin.
Platan varð til á staðnum
Króli segir að í raun hafi platan orðið til af sjálfu sér. Í raun búi ekkert meira að baki en að þá hafi langað að búa til tónlist. Það varð til þess að þeir vörðu heilli nótt í stúdíói og þetta varð niðurstaðan. „Við áttum nokkur bít en að öðru leyti varð platan til á staðnum.“ Þá hafi markmiðið aldrei verið að gera neitt meira með plötuna en einfaldlega að gefa hana út.
„Við áttum nokkur bít en að öðru leyti varð platan til á staðnum.“
22:40-08:16 er fjórða plata þeirra JóaPé og Króla en þeir urðu landsfrægir nánast á einni nóttu er platan Gerviglingur kom út sumarið 2017 og er óhætt að fullyrða að lagið B.O.B.A. sé eitt vinsælasta íslenska lag allra tíma. Þeim vinsældum var fylgt eftir með plötunni Afsakið hlé sem kom út snemma á þessu ári. Báðar plöturnar nutu mikilla vinsælda og fengu gríðarlega hlustun á Spotify þar sem hlusturnartölurnar hlaupa á milljónum. Piltarnir eru sömuleiðis virkir utan tónlistarinnar, þannig hefur JóiPé æft handbolta með FH og verið viðloðandi unglingalandsliðin á meðan Króli var valinn ræðumaður Íslands í Morfís þar sem hann keppti fyrir hönd Flensborgar.
Fínt ef fólk vill hlusta
Með tilkomu streymisveitna á borð við Spotify hefur plötuútgáfa tekið stakkaskiptum undanfarin ár og það hefur færst í vöxt að stórir listamenn laumi út plötum án nokkurs fyrirvara. Hefðbundin plötusala hefur dregist verulega saman og því þurfa listamenn að finna nýjar leiðir til að koma efninu á framfæri og fylgja því svo eftir með öflugri markaðssetningu og tónleikahaldi. Dæmi um listamenn sem hafa gert þetta eru Beyoncé, Eminem, U2, The Weekend og Drake. JóiPé og Króli fara hins vegar aðra leið því ekki var að heyra á Króla að þeir ætli að fylgja plötunni á eftir með einhverjum hætti. „Ef fólk vill hlusta þá er það bara fínt.“