Söngleikurinn Ðe Lónlí Blú Bojs sem byggður er á lögum samnefndrar hljómsveitar hefur slegið rækilega í gegn í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Nú sér fyrir lok sýninga og því þurfa þeir sem ekki vilja missa af frábærum söngleik úr smiðju yngri kynslóðarinnar að hafa hraðar hendur til að næla sér í miða.
Söngleikurinn er fyrsta verkið sem Höskuldur Þór Jónsson, leikstjóri og handritshöfundur, skrifar frá grunni en önnur sýningin sem hann leikstýrir. „Þegar maður skrifar verkið hefur maður ákveðna sýn, þannig að það hjálpar að leikstýra þessu líka. Þetta er þó vissulega sitt hvort dæmið, að skrifa er eitt og að leikstýra er annað,“ segir Höskuldur.
Söngleikurinn er byggður í kringum vinsælustu lög Ðe Lónlí Blú Bojs en sagan fylgir þó ekki raunverulegri sögu hljómsveitarinnar. Í henni er fjallað um Sörla, Pál og Njál, þrjá vini sem dreymir um að verða tónlistarmenn. Þeir leita til úrelts umboðsmanns og ná að landa samningi hjá honum. Umboðsmaðurinn bætir síðan töffaranum Valdimar við hópinn, þannig verður hljómsveitin Ðe Lónlí blú bojs til. Í sýningunni er farið yfir drauma og bresti sem oft eru fylgifiskur nýtilkominnar frægðar og lögum hjómsveitarinnar tvinnað saman við.
„Það þarf að vera ákveðið traust og drifkraftur til staðar og ég er heppinn með leikhópinn. Þetta hefði aldrei getað gerst án þess að hafa með sér svona frábæran hóp,“ segir Höskuldur en flestir sem að sýningunni koma eru nýbúnir með framhaldsskóla. Höskuldur er sjálfur 21 árs.
Sýningin er fyrir alla aldurshópa og er dæmi um að þrjár kynslóðir hafi mætt saman og allir skemmt sér konunglega. Ðe Lónlí Blú Bojs er frábært leikrit sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Ðe Lónlí blú bojs hljómsveitin var stofnuð upp úr Hljómum síðla árs 1974, en hljómsveitarmeðlimirnir Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson, Engilbert Jensen og Björgvin Halldórsson vildu breyta um stíl og áherslur. Sveitin varð strax mjög vinsæl og kom fyrsta plata þeirra af þremur út árið 1975, Stuð Stuð Stuð. Sveitin starfaði til ársins 1976, en mörg laga hennar hafa lifað með þjóðinni, líkt og heyra má á sýningum söngleiksins, þar sem margir taka undir í söngnum.
Facebook-síða Ðe Lónlí blú bojs söngleiksins.
Mynd/ Aðsend