Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Sigríður Eyþórsdóttir hefur unnið marga sigra í lífinu: „Við erum að lifa draum sem nú hefur ræst“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf ræddi við Sigríði Eyþórsdóttur í byrjun apríl og birtist viðtalið í kjölfarið í blaðinu. Í tilefni dagsins verður viðtalið birt hér á vefnum í heild sinni.

 

„Við viljum standa okkur fyrir Ísland. Okkur þykir svo vænt um landið okkar. Við finnum fyrir svo mikilli samstöðu og ég er svo stolt af tungumálinu okkar. Það er eins konar „leynitungumál“. Þess vegna er svo gaman að fá að syngja þennan gullfallega texta við lagið sem Lovísa samdi.“

Sigríður Eyþórsdóttir sigraði í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2022 ásamt systrum sínum, Elínu og Betu, og Eyþóri, bróður þeirra á trommum, með flutningi sínum á laginu Með hækkandi sól.

Sigríður Eyþórðsdóttir
Ljósmyndari: Cat Gundry-Beck
Stílisti: Íris Tanja Flygenring
Förðunarfræðingur: Helen Dögg Snorradóttir
Gleraugu frá Optical studio
Myndir teknar í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði

Á borðinu er rjúkandi kaffi og heitt súkkulaði og blaðamaður hlakkar til að hitta þessa áhugaverðu konu og kynnast henni betur. Sigga hefur frá mörgu að segja og er tilbúin til að deila með okkur sögum af helstu áskorunum og sigrum hennar í lífinu um leið og við ræðum söngvakeppnina og undirbúninginn fyrir Eurovision.

Við erum ótrúlega spenntar. Þetta verður mikil vinna, en ég elska að vinna svona mikið

Síðustu dagar hafa verið ótrúlegir í lífi systranna: „Þessi keppni er stærra en allt sem við höfum gert áður. Ég hef alltaf horft á Eurovision, en ég hef aldrei kynnst heiminum á bak við tjöldin. Við kappkostuðum auðvitað að koma þessu vel frá okkur. En okkur þótti líka vænt um að fá að kynnast öllu þessu fólki, bæði hinum keppendunum og starfsfólki RÚV. Það fór örugglega ekki fram hjá neinum að sigurinn kom okkur á óvart. Núna tekur við mikil vinna og skemmtilegur undirbúningur fyrir keppnina á Ítalíu. Svo er ótrúlega gaman að lesa allar jákvæðu athugasemdirnar, flestar jákvæðar, en ekki allar, en gagnrýnin á lagið okkar er sett fram á smekklegan hátt á erlendum miðlum og Youtube. Þannig að við erum ótrúlega spenntar. Þetta verður mikil vinna, en ég elska að fá að vinna svona mikið.“

- Auglýsing -
Frá vinstri: Elín, Beta, Eyþór og Sigga. Aðsend mynd.

Það eru níu ár á milli Siggu og Elínar og fimm ár á milli hennar og Betu. „Elín er svo voða róleg. Ég er orkumeiri og með mikla ábyrgðartilfinningu, of mikla eiginlega, kannski af því að ég er elst. Beta er voða ljúf og oftast ofur jákvæð. Öll börn elska hana, en hún er einmitt að vinna í Hjallastefnunni. Það á svo vel við hana. Auk þess erum við svo heppnar að hafa Eyþór litla bróður með okkur, hann er ótrúlega klár söngvari og tónlistarmaður (á trommunum), en hann er sá yngsti í systkinahópnum.

Foreldrar okkar ólu okkur upp við réttsýni í hugsun. Mamma er alltaf tilbúin að berjast fyrir málstað minnihlutahópa. Ég er svo þakklát fyrir uppeldið okkar. Þau hafa aldrei sett sig á neinn stall. Við erum bara partur af heildinni og það breytist ekki núna, þrátt fyrir þennan sigur. Við erum frekar jarðbundnar oftast, en erum líka miklir sveimhugar.

Þetta er minnihlutahópur sem er okkur mjög kær

Við tileinkum flutning okkar mannréttindum, sér í lagi trans-börnum. Ef við getum notað rödd okkar til þess að styðja við og vera rödd fyrir minnihlutahópa þá er einhverju náð. Við viljum vekja athygli á þörf fyrir bætta þjónustu við trans-börn, en það er há tíðni sjálfsvígstilrauna eða allt að 40%.

Snerti streng hjá mér

Sigga ólst upp í Miðbænum en flutti til Englands þegar hún var tveggja ára. Á þeim tíma var Eyþór, pabbi hennar, að gera það gott með Mezzoforte. „Við bjuggum þar í sirka tvö ár og komum svo aftur heim. Foreldrar mínir sögðu mér að ég hafi sungið frá því að ég var nokkurra mánaða gömul og spilað á píanó frá því að ég var sirka 5 eða 6 ára.

Við bjuggum í Miðbænum þangað til ég varð 10 ára, en þá fluttum við í Vesturbæinn þar sem ég gekk í Hagaskóla. Þegar foreldrar mínir fluttu síðan í Grafarvoginn varð ég eftir og fór að búa með þáverandi kærasta mínum. Þegar ég var 16 ára fór ég út til Kaupmannahafnar sem au pair hjá Kikku (rithöfundinum Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur) á meðan hún var að skrifa Ávaxtakörfuna. Það var einstök reynsla.“

Ég átti svo tvö börn í millitíðinni og var því orðin þriggja barna móðir 25 ára

- Auglýsing -

Nokkrum árum síðar eignaðist Sigga sitt fyrsta barn með æskuástinni. „Ég fór í sjúkraliðanám þegar fyrsta barnið mitt var eins árs. Bókleg fög hafa aldrei höfðað mikið til mín svo að ég fór ekki í menntaskóla. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á heilbrigðisvísindum. En ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í sjúkraliðann var að ég hafði hugsað um ömmu mína sem var með krabbamein. Hjúkrunarkonurnar sem sáu um hana sögðu við mig: „Þú ert svo góð í þessu, þú ættir bara að fara að læra þetta.“ Það snerti einhvern streng hjá mér. Ég átti svo tvö börn í millitíðinni og var því orðin þriggja barna móðir 25 ára þegar ég kláraði sjúkraliðann og stúdentsprófið.“

Sigga giftist Þorsteini Einarssyni, söngvara og gítarleikara í Hjálmum. „Við eigum tvö yndisleg börn saman. Þegar leiðir okkar skildu eftir langt samband var ég einstæð um tíma, þangað til ég kynntist yndislegum manni árið 2017. Hann er frá Bandaríkjunum og núna búum við hér á Íslandi og eigum eitt lítið örverpi saman.“

Sigga ásamt þremur sonum, dóttur og manninum sínum. Aðsend mynd.

Mikilvægt að rækta vitundarsamband við líkama sinn

„Eftir sjúkraliðann fór ég í Listaháskólann og kláraði nám í tónsmíðum. Samhliða því stofnaði ég hljómsveitina Sísý Ey með systrum mínum og vann að hinum ýmsu tónlistarverkefnum. Fyrir utan tónlistina hafa heilbrigðismál alltaf verið mér hugleikin, sem varð til þess að ég bætti við mig námi í einkaþjálfun. Það var frábært nám. En mig langaði að kafa dýpra og bæta andlega þættinum inn í æfingakerfið. Ég er ekki einungis að þjálfa fólk til þess að styrkja sig líkamlega, heldur finnst mér ekki síður mikilvægt að rækta vitundarsamband og bera virðingu fyrir líkama sínum.

Það þýðir ekki að fara bara í megrun og refsa sjálfum sér stanslaust og vera bara: ég ætla að fara með þennan ógeðslega líkama sem ég hata í ræktina og þræla honum út.

Þannig að þegar ég kláraði námið í einkaþjálfaranum fannst mér jóga vera rökrétt næsta skref hjá mér. Ég fann mér jógakennara og hef upp frá því stundað jóga næstum daglega. Andleg málefni hafa alltaf verið mikilvægur hluti af mínu daglega lífi.“

Sigga tók sér tímabundið hlé frá tónlistinni þegar hún eignaðist sitt yngsta barn. Þegar Covid skall á ákvað hún svo að bæta við sig námi í hjúkrun. „Mig langar að auka þekkingu mína á heilbrigði til að geta hjálpað fólki að huga vel að sér. Ég hef í gegnum tíðina átt erfitt með samanburðinn sem fylgdi mér við að vera tónlistarkona. Það var ekki alltaf uppbyggilegt. Það getur verið erfitt að lesa gagnrýni um sjálfan sig. Þú opinberar þig svo rosalega í listinni, þannig að það er auðvelt að taka neikvæðri gagnrýni mjög persónulega.“

Ég viðurkenni alveg að mér sárnaði þegar ég sá sumar athugasemdir sem komu eftir sigurinn í Söngvakeppninni

Núna er Sigga aftur komin af stað með systrum sínum í tónlistinni. Hún finnur fyrir miklum styrk og er tilbúin til að helga sig alfarið þessu nýja verkefni. „Það er vissulega erfitt að lesa óbilgjarna gagnrýni, sem manni finnst ekki sett fram af virðingu. Ég held að margir tónlistarmenn fái illt í hjartað og hætti jafnvel í tónlist, því það getur verið svo erfitt að finna sjálfstraustið þegar búið er að segja ósanngjarna hluti. Auðvitað hefur fólk mismunandi skoðanir á því sem maður gerir, en sé gagnrýnin ekki sett fram af virðingu þá getur það verið sárt. Ég viðurkenni alveg að mér sárnaði þegar ég sá sumar athugasemdir sem komu eftir sigurinn í Söngvakeppninni. Ég staldraði hins vegar ekkert við það. Við erum sterkar saman systurnar og við erum með góðan hóp í kringum okkur sem heldur vel utan um okkur.“

Kvíði og áfengi er ekki góður kokteill

„Ég greindist seint með ADHD, rétt fyrir þrítugt, en hafði vitað lengi að ég væri líklegast með ADHD. Þegar ég hugsa til baka þá hefur þetta sennilega verið fyrsta alvöru áskorunin. Það hefur haft mikil áhrif á allt mitt líf. Maður er með hugann úti um allt og upplifir sig alltaf að vera að trufla. Sérstaklega í skólakerfi þar sem ætlast er til þess að maður haldi sig innan ákveðins ramma. Margir kennarar höfðu litla trú á mér og voru neikvæðir í minn garð.

Næsta stóra áskorunin var að takast á við átröskun sem ég þróaði með mér eftir að ég átti fyrsta barnið mitt. Ég fór í meðferð við átröskun hjá Hvíta bandinu og vann mig út úr henni og verið í bata síðan 2015. Það var mjög stórt verkefni fyrir mig, jafnvel eitt það erfiðasta.“

Því næst tók við tímabil þar sem Sigga komst að því að hún átti ekki samleið með áfengi.  „Ég er oft að kljást við kvíða og þegar maður notar alkóhól til að deyfa sig þá verður það fljótt vítahringur. Kvíði og áfengi er ekki góður kokteill. Kvíðinn bara eykst. Ég er því búin að vera edrú í tíu ár, fyrir utan nokkra mánuði. Á þeim tíma hafa lífsgæði mín aukist mikið. Hugleiðslan og heilbrigt líferni hefur gjörbreytt öllu hjá mér. Ég gæti ekki hugsað eins vel um börnin mín og ég geri í dag ef ég hefði ekki látið af þessari sjálfhverfu sem fylgir því oft að lifa óábyrgum og óheilbrigðum lífsstíl að fara illa með áfengi.

Hjá mér snerist þetta um að átta mig á því að ég væri ekki upphaf og endir á þessu öllu. Þó svo að ég muni kannski aldrei komast að tilganginum með jarðvist minni, þá þarf ég samt að trúa á það góða. Við erum öll bara sálir á ferðalagi með mismunandi ramma.“

Sigga segir: „Raskanirnar voru á endanum mér í hag. Það truflar mig óneitanlega oft að vera með ADHD, en oft er það mér í hag.

Ég er líka mjög glöð að vera með ADHD, það er ekki bara áskorun, heldur hef ég áhuga á mörgu og vil alltaf læra meira. Forvitnin mín gerir það að verkum að ég hef mikinn áhuga á öðru fólki. Ég hef endalausan áhuga á því að fræðast um nýja hluti. Ég get verið algjörlega filters-laus, sem getur oft verið fyndið og öðrum til skemmtunar. Ofvirknin getur líka komið sér vel og hjálpað mér að vinna vel og vera dugleg.

Ég hef alltaf upplifað mig vera verri en ég er og hef óskaði þess að vera einhvern veginn betri. Nú er ég bara þannig að ég næ að samgleðjast sjálfri mér og öðrum og vera með, í stað þess að bera mig alltaf saman við aðra.“

Ég er örugglega að koma úr erfiðu fyrra lífi

Frá vinstri: Eyþór Gunnarsson, Sigga Ey og Ellen Kristjánsdóttir. Aðsend mynd.

Sigga og systurnar eiga sér greinilega marga aðdáendur. Að borðinu okkar á kaffihúsinu kemur fólk og óskar henni til hamingju með sigurinn. Sigga þakkar fyrir sig af hógværð og einlægni og fjörugar samræður fara af stað um flutninginn, lagið, Eurovision og stuðning þeirra við trans-börn. Það er ljóst að tilhlökkunin eftir keppninni í vor er mikil. Eftir áhugavert samtal um keppnina horfum við hvor á aðra og drögum andann djúpt. Svo tökum við upp þráðinn að nýju og ræðum aðeins betur um kvíðann, sem Sigga segir að hafi hrjáð hana alla tíð.

„Ég held að ég hafi örugglega fæðst með kvíða. Ef ég tek þetta út frá jógaheimspekinni þá er ég örugglega að koma úr erfiðu fyrra lífi. Mamma og pabbi hafa alltaf talað um að ég hafi verið svo vör um mig þegar ég var barn. Svo gat ég líka verið svo hvatvís, sem er kannski skrítið þegar maður er kvíðinn. Ég fór bara í heimsókn til fólks og treysti bara. Ég labbaði bara inn. Ég trúði því að allir væru góðir, en svo var brotist inn til mín og öllu rænt.

Mér finnst góður eiginleiki að trúa því að allir séu góðir og ég vil ekki breyta því. Fyrst var ég svolítið hrædd eftir innbrotið, því ég var ein heima með dóttur mína og einhver hefði getað gengið inn á okkur. En svo hugsaði ég; þetta er bara fólk sem er að ströggla í lífinu. Þetta er ekki minn sársauki, þetta er meira þeirra. Ég hafði líka hugsað fyrir innbrotið að ég þyrfti að fara að losa mig við jakka og alls kyns föt, svo þau sáu bara um það fyrir mig. Ég vil ekki festast í reiðinni og ég er ekki langrækin. Ég held að reiði sem tilfinning sé stundum nauðsynleg til þess að koma manni í gegnum erfið áföll svo maður gefist ekki upp. En svo þarf að gera hana upp, svo hún verði ekki að andlegu meini.

Ein stærsta áskorunin sem ég hef lent í var þegar ég missti íbúðina mína eftir bankahrunið og þurfti að flytja heim til mömmu og pabba og búa hjá þeim í þrjá mánuði. Það var mjög mikið högg fyrir sjálfsmyndina og óttinn við að geta ekki skapað börnunum mínum betra líf var mikill. Ég trúði ekki að ég myndi missa heimili mitt. Ég er samt svo heppin að eiga ótrúlega góða fjölskyldu sem stendur við bakið á mér og ég þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að eiga ekki í mig og á.

Hins vegar ýfði þetta áfall mjög upp kvíðann hjá mér. Að finna að ég væri ekki örugg sem einstæð móðir. Með tíð og tíma, og með hjálp alls þessa yndislega fólks sem ég hef í kringum mig, komumst við út úr þessu. Sem betur fer. Kvíðinn yfir því að hafa ekki nóg fyrir mig og börnin mín tók stundum yfir, en ég hef verkfæri til að takast á við það sem veldur mér kvíða.“

Þegar maður hefur misþyrmt líkamanum þá þarf maður að byggja sig aftur upp frá grunni

Sigga átti sitt fyrsta barn tvítug. Hún var hins vegar að nálgast 37 ára aldurinn þegar hún átti fjórða barnið. „Munurinn á að eiga barn núna er sá að ég er ekki eins sjálfhverf og þegar ég var tvítug. Mér finnst ég ekki alltaf vera að missa af einhverju. Núna er ég viðkvæm fyrir því að missa svefn hahaha … Ég læt það ekki stoppa mig, en ég þarf að vera rosalega meðvituð um það. Það kemur líka út frá átröskuninni, það er viss aftenging við líkamann og virðingarleysi. Þegar maður hefur misþyrmt líkamanum þá þarf maður að byggja sig aftur upp frá grunni með virðingu að leiðarljósi.

Ég þakka samfélagslegum breytingum hversu góðum bata ég hef náð. Og ég sé líka hvernig hugarfar mitt er orðið miklu betra. Mér finnst fjölbreytileikinn vera þannig að allir líkamar eru fallegir. Ég fagna því að fitufordómar séu á undanhaldi. Af því að ég er svo grönn þá fæ ég meira línur í andlitið. Ég get ekki einu sinni breytt neinu og húðlæknirinn minn sagði að það eina sem ég gæti gert til þess að fylla í hrukkur væri að bæta aðeins á mig,“ segir Sigga í gríni en segist ekki vilja fara út í umræðuna um aldursfordóma. „Það er fallegt að eldast og það er fallegt að það sjáist að þú hafir lifað.

Mér finnst svo gaman að börnin mín fái að sjá mig fertuga að vinna Söngvakeppnina. Það sýnir þeim að maður getur allt sem maður vill. Þau eru búin að vera með mér einstæðri og sjá mig harka svo mikið. Það er því ekki síður persónulegur sigur að ná þessum árangri.“

Helstu sigrarnir

Við höldum áfram að tala um sigrana hjá Siggu. Hún færir sig til í stólnum og það kemur viss værð yfir hana þegar hún útskýrir stolt að hennar helstu sigrar séu börnin hennar.

„Þau eru stórkostlegar manneskjur, kurteisar og fallegar. Mér er alveg sama hvað þau fá í einkunn í skólanum, bara að þau séu góðar manneskjur. Það er helsta afrekið. Mér þykir líka svo vænt um samband mitt við fjölskylduna, því það er ekki sjálfgefið að maður eigi það.“

Við höfum lifað og hrærst í  tónlistarheiminum alla tíð og það hefur gagnast okkur helling

Sigga ólst upp við tónlist. Foreldrar hennar eru tónlistarmenn, en auk þess voru afi hennar, Jón Múli Árnason, og amma hennar, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, bæði þjóðþekkt og daglegir gestir á íslenskum heimilum gegnum Ríkisútvarpið. „Það kom alveg stundum fyrir að ég óskaði þess að fjölskylda mín væri hefðbundnari, að allir væru í dagvinnu og við hefðum getað verið meira heima á kvöldin og um helgar. En svo öfunduðu aðrir mig af því að fá að upplifa þennan heim, gista á hótelum og vera á tónleikum og eiga þekkta foreldra. Við höfum lifað og hrærst í  tónlistarheiminum alla tíð og það hefur gagnast okkur helling.

Eyþór Gunnarsson og Sigga Ey að spila á píanó. Eyþór er þekktur djasspíanisti. Aðsend mynd.

Foreldrar mínir hafa alltaf stutt okkur svo mikið. Og amma Sísý á meðan hún lifði. Hún var mér svo mikil fyrirmynd. Hún hafði svo óbilandi trú á mér. Hún sá mig alltaf sem einhverja súperstjörnu þó að ég hefði aldrei trú á því. Mamma og pabbi sjá líka alltaf meira í okkur en við sjálfar. Ég hef átt alls konar fyrirmyndir í mínu lífi. Þar á meðal eru hinn andlegi kennari Ram Dass, sem ég er rosalega hrifin af, og Alan Watts heimspekingur og fleiri. Þeir hafa kennt mér mikið um lífið. Ég lít til þeirra, því þeir boða kærleika, jöfnuð og frið, að allir fái að vera þeir sjálfir. Með þeim skoða ég hvernig ég virkja friðinn innan frá mér. Ég laðast að öllum sem breiða út þann boðskap.“

Ekki flott að vera hipp hoppari og hlusta á metal

Við ræðum um tónlistina. Sigga orðar það svo að þær systurnar séu allar frekar „genre-fluid“ á tónlist. „Ég fíla alla tónlist. Ég hlustaði mikið á rapptónlist þegar ég var unglingur en á sama tíma fílaði ég Metallica, sem ég þorði varla að viðurkenna þá. Það þótti ekki flott að vera hipp hoppari og hlusta á metalrokk. Ég elskaði t.d. Nirvana og Led Zeppelin og ég hef alltaf elskað kántrítónlist. Ég var bara um tvítugt þegar KK frændi kynnti mér tónlist kántrísöngkonu sem heitir Gillian Welch. Hún er alveg geggjuð og mikill áhrifavaldur minn og svo elska ég líka raftónlistarmenn eins og t.d. James Blake. Það er engin tónlist sem ég get ekki gefið séns á einhvern hátt. Ef svo er þá er það algjör undantekning. Það er viðhorfið sem skiptir mig máli. Ég hugsa það þannig, að allir séu að gera sitt besta þó svo að ég setji það kannski ekki á Spotify-listann minn.

„Heyrðu! Ég er ennþá með kvenmannsrödd, þú getur ekki sett mig í svona djúpa rödd.“

Tónlistarsmekkur okkar systranna er svolítið kántrí- og þjóðlagaskotinn. Við ólumst upp við það að radda mikið og það er gjöf sem við fengum. Þessi tónlist er tilvalin til þess, þ.e. þjóðlagatónlist. Ég er oftast neðri röddin. Þó að ég geti sungið alls konar raddir þá funkera ég oftast best í neðstu röddinni. Elín er í miðjunni og Beta í efstu röddinni. Pabbi setur mig stundum í óþarflega lágar raddir og þá er ég er bara: „Heyrðu! Ég er ennþá með kvenmannsrödd, þú getur ekki sett mig í svona djúpa rödd.“ Mér finnst samt visst „power“ í því að syngja neðstu röddina og það á mjög vel við mig.“

Við áttum ekki von á þessu

Sigríður Eyþórsdóttir Ljósmyndari: Cat Gundry-Beck. Stílisti: Íris Tanja Flygenring. Förðunarfræðingur: Helen Dögg Snorradóttir. Gleraugu frá Optical studio. Myndir teknar í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði.

Talið berst að annríkinu seinustu daga – keppninni og niðurstöðu hennar. Sigga er enn svolítið hissa. „Sérstaklega af því að við áttum ekki von á þessu. Ekki af því að við hefðum ekki trú á laginu, sem Lay Low samdi, eða að við séum að gera lítið úr okkur sjálfum. Það var meira út af því að lagið okkar er ekki dæmigert júróvisjón-lag.

Það er alltaf gott að koma á óvart, en við fundum síðustu dagana fyrir úrslitin að hjólin voru byrjuð að snúast aðeins með okkur. Við sögðum við Unni, leikstjórann okkar, þegar við vorum að setja atriðið saman, að við yrðum að vera við sjálfar á sviðinu. Það er partur af því að vera með ADHD. Ég get ekki leikið og ég get alls ekki dansað og sungið á sama tíma. Eina sem Unnur, okkar frábæri leikstjóri, vildi láta okkur gera var að tengjast myndavélinni og vera ekki svona mikið inni í okkar í eigin heimi.

Lovísa er líka svo stórkostlegur lagahöfundur og manneskja. Það er svo mikil fegurð og útgeislun frá henni. Hvort tveggja lagið og textinn höfðaði svo sterkt til okkar. Við fundum svo mikla kvenorku í því. Textinn er um konu sem er í vistarbandi og er að velta fyrir sér aðstæðum sínum. Vistarband var notað yfir það þegar fólk átti ekki jarðir eða húsnæði og neyddist til að búa og vinna á bæjum hjá öðrum. Bóndinn réð allri vinnu hjúa sinna og fékk af henni allan arð, hvort sem vinnan var unnin á heimili hans eða utan þess. Ef vinnumaður fór til dæmis á vertíð, þá fékk bóndinn sem hann tilheyrði allan afla sem vinnumaðurinn dró úr sjó. Á móti bar bóndi ábyrgð á því að hjú hans fengju fæði, klæði og húsaskjól á ráðningartíma þeirra.

Við eigum lausnarbréfið hennar

Langafi okkar talaði mikið um þetta við okkur. Langalangalangamma okkar var í vistarbandi. Við erum öll svo ung í okkar fjölskyldu þegar við eignumst börn, þannig að ég var svo heppin að eiga langömmu og langafa og langalangalangömmu, langt fram eftir aldri. Við eigum lausnarbréfið hennar, þar sem hún bað um að losna úr vistarbandinu. Hún fékk lausn frá vistarbandinu, en þurfti skilja barnið sitt, sem hún átti með bóndanum, eftir á bænum. Það var vegna þess að hún gat ekki séð fyrir því og taldi það geta átt betra líf þar. Bóndinn átti sína konu og fjölskyldu og þau ólu framhjáhalds-barnið upp saman.“

Elskar að lagið sé „love/hate“-lag keppninnar

Þegar Sigga er spurð um hin lögin sem komust áfram í keppninni, þá tekur hún það fram að hún elski það, að þeirra lag sé það sem kalla má „love/hate-lagið“ og að fólk sé yfirhöfuð að hlusta á það og mynda sér sterka skoðun á því – viðbrögðin séu oftast samt jákvæð. „Annars elska ég portúgalska lagið með henni Maro. Ég hlakka svo til að hitta hana. Ég mun halda áfram að hlusta á lagið hennar þegar Eurovision er búið. Og svo finnst mér hollenska lagið mjög flott, svona Lana Del Rey fílingur í því. Ég held að keppnin verði lituð af átökunum í Úkraínu. Það er mikilvægt að boða frið með öllu sem við gerum.

Það er líka svo geggjað að sjá fólk á öllum aldri vera að hlusta á okkur. Og ég verð að segja að ein athugasemd á Twitter fékk mig til að brosa. Þá sagði ein að hún hefði grátið sig í svefn yfir úrslitum keppninnar. Hún hafi svo sótt sjö ára son sinn í pössun daginn eftir og hann sagt henni að hann hefði kosið systurnar átta sinnum. Við erum greinilega ekki með sama tónlistarsmekk, sagði konan.

Annars elskar dóttir mín, sem er þriggja ára, Reykjavíkurdætur og biður mig reglulega um að hlusta á lagið sem og öll hin lögin líka. Í gær byrjaði t.d. dagurinn okkar á því að hlusta þrisvar sinnum á öll lögin í keppninni og svo vildi hún færa sig yfir í sjónvarpið og horfa á þau öll þar aftur.“

Mesta „boss lady“ sem ég hef kynnst

Áður en við klárum úr bollunum og ljúkum spjalli okkar vill Sigga minnast á eitt. Hún talar um hvað hún hafi verið ánægð með RÚV og kvenorkuna, sem þar er nóg af. „Það er mikill viðsnúningur á RÚV. Pródúsentinn, hún Salóme, er brjálæðislega klár og sama á við um Ragnhildi, sem er mesta „boss lady“ sem ég hef kynnst. Hún er rosalega dugleg og hefur fallega sýn á allt sem hún gerir. Hún er svo mikið á bak við allt. Annars var hver einasta manneskja frábær í RÚV-teyminu. Ég hef aldrei kynnst öðru eins. Partur af því að mig langaði til þess að sigra var til þess að fá að halda áfram að vinna með þessu frábæra fólki.

Við erum staðráðnar í að ná eins langt og við mögulega getum í keppninni. Við viljum nýta okkur hana sem stökkpall til að vekja athygli á tónlistinni sem við elskum. En hvað sem gerist á þessu ferðalagi, þá erum við að lifa draum sem nú hefur ræst, umkringdar dásamlegu fólki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -