„Heimsfaraldur kórónuveiru sýndi mikilvægi bæði starfseminnar og starfsfólksins. Það er mikill skortur á starfsfólki í þessum geira . Fólk er að kjósa að fara til annarra starfa og þetta hjálpar síður en svo þeirri þróun. Fólk upplifir þessa orðræðu sem kaldar kveðjur og litlar þakkir fyrir það sem það lagði á sig til að vinna gegn faraldrinum. Þetta fólk hélt að við værum öll að vinna saman á þessum álagstíma,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is í kjölfar ummæla Svanhildar Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, sem bar á borð meðalheildarlaun íslenskra hjúkrunarfræðinga, lækna, ljósmæðra og sjúkraliða í umræðuþíttinum Silfri Egils á RÚV í gær.
Svanhildur spurði hvenær laun þessara stétta væru orðin nægilega góð að þeirra mati.
Sonja segir hins vegar að meðaltal heildarlauna segi lítið sem ekkert til um föst laun:
„Fólk ber gjarnan svona tölur saman við það sem það þekkir til í dagvinnulaunum. Vaktavinnufólk vinnur á kvöldin og um helgar. Vaktavinnufólk vinnur á rauðum dögum, eins og um jól og á páskum. Það hefur verið mikil mannekla og aukið álag vegna heimsfaraldurs kórónaveiru og fólk hefur unnið mikla yfirvinnu. Ef við horfum svo til grunnlauna sem er algengast að fólk sé að bera saman milli stétta þá eru byrjunarlaun sjúkraliða á Landspítalanum 448.025 krónur og byrjunarlaunin hjá hjúkrunarfræðingum á sömu stofnun eru um 525.000 krónur.“
Segir Sonja tímabundnar álagsgreiðslur hafa verið til þessa hóps; að mati BSRB dugi þær hins vegar ekki til að greiða fyrir það aukaálag sem skapast þegar skortir starfsfólk og sinna þurfi mun fleiri verkefnum:
„Þessi umræða vaknar í tengslum við gerð kjarasamninga. Þarna er undir rós verið að halda því fram að launin séu há. Það fer ekki vel í fólk sem er á lægri launum en stéttir sem sinna sambærilegum störfum þegar kemur að hæfnikröfum, ábyrgð og álagi. Fólk upplifir þetta sem kaldar kveðjur.“