Sonur og eiginmaður Esther Salas, alríkisdómara, voru skotnir á heimili þeirra seinni partinn í gær.
Salas var nýlega skipuð dómari í máli tengdu kynferðisglæpamanninum Jeffrey Epstein. Viðskiptajöfurinn Jeffrey Epstein, var árið 2019 ákærður fyrir mansal og kynferðislegt ofbeldi gegn fjölda stúlkna undir lögaldri. Epstein hengdi sig í fangaklefa sínum fyrir tæpu ári.
Tvítugur sonur Salas, Daniel Anderl, lést í skotárásinni, en eiginmaður hennar, Mark Anderl lögmaður og verjandi, særðist. Sonurinn mun hafa opnað fyrir skotmanninum, með föður sinn nokkrum skrefum aftar. Skotmaðurinn hóf strax skothríð og hljóp síðan í burtu samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs. Salas sjálf var í kjallara heimilisins þegar skotárásin átti sér stað og særðist ekki. Heimili fjölskyldunnar er í North Brunswick, New Jersey, í Bandaríkjunum.
Leit stendur yfir að skotmanninum, en hann mun hafa dulbúið sig sem sendill frá FedEx flutningafyrirtækinu. Fyrirtækið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að það vinni í fullu samstarfi við yfirvöld hvað rannsókn málsins varðar og sendir samúðarkveðju til Salas og fjölskyldu hennar.