Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
4.4 C
Reykjavik

Sorg, sút og upprisa í Hamraborg: Síðan fann Óskar leiðina heim

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Persónulega hef ég aldrei skilið af hverju ég geri þetta. Ég skil læknisfræðilegu útskýringuna en ég skil ekki af hverju ég hef enga stjórn. Í hvert einasta sinn sem ég tapaði öllu skrifaði ég heilu ritgerðirnar um það hvernig ég ætlaði að haga mínu lífi. Það skipti engu máli. Ég hafði aldrei neina stjórn fyrr en peningurinn var búinn. Þá átti ég ekkert allan mánuðinn og svo gerði ég þetta allt aftur. Byrjaði alltaf á núllinu. Alveg stórmerkilegt.“

Þetta segir Óskar Steinn Gestsson, 46 ára gamall Kópavogsbúi sem glímdi við spilafíkn í 25 ár. Ungur varð hann mjög óheiðarlegur og þegar hann komst á botninn í sinni spilafíkn var hann búinn að einangrast algjörlega. Fjölskyldan vildi ekkert með hann hafa, hann missti vini út af lygum og prettum, var heimilislaus og allslaus.

Í dag er hann í bata. Hann á langt í land, á eftir að vinna mikið í sjálfum sér en finnur ekki jafn sterka þörf til að spila eins og áður.

Óskar Steinn er í viðtali við Lokum.is. Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar.

Stal veski 12 ára

Óskar hefur búið í Kópavogi síðan hann var krakki og fékk ungur vinnu við að bera út og sópa bílakjallara. Tólf ára gamall var hann farinn að fá reglulega útborgað og þá hófst fiktið í spilakössunum. Fyrst um sinn var aðeins um fikt að ræða. Sárasaklaust. Sakleysið hvarf áður en langt um leið.

„Ég á mjög sterka minningu frá því ég var tólf ára. Ég lá á stofu á spítala með strák sem ég þekkti. Ég lá þar í þrjá daga og fékk að fara heim en daginn eftir fór ég í heimsókn til stráksins. Mamma hans var líka í heimsókn og þegar hún sneri sér við stal ég veskinu hennar. Þetta er það fyrsta óheiðarlegra sem ég gerði.

- Auglýsing -

Ég man að ég fór með fimm þúsund kallinn úr veskinu hennar í sjoppu sem var þá á Neðstutröð og eyddi honum í spilakassa. Auðvitað komst strax upp hver stal veskinu því það kom enginn annar til greina. Þegar ég kom heim úr sjoppunni varð allt vitlaust út af þessu. Pabbi var bálreiður út í mig,“ segir Óskar.

„Ég man alltaf skömmina þegar ég hitti strákinn eftir þetta. Ég gat ekki horft í augun á honum. Kaldhæðni örlaganna réð því að næstu tíu árin vann þessi strákur hjá Vídeómarkaðinum í Hamraborg. Lengi vel í minni spilageðveiki gat ég ekki farið þangað inn því ég vissi að hann var að vinna,“ bætir hann við.

Vídeómarkaðurinn í Hamraborg hýsir fjölmarga spilakassa og er í göngufjarlægð frá heimili Óskars í Kópavogi.

- Auglýsing -

Spilafíknin ágerðist á unglingsárum og fjölskylda Óskars botnaði ekkert í þessari sjúklegu fíkn í spilakassa. Það hlyti að vera eitthvað að drengnum. Því trúði Óskar sjálfur. Að hann væri aumingi sem aldrei yrði neitt úr.

„Mér fannst ekki vera neitt jákvætt við mig. Ég hafði enga trú á mér og fór á vissan hátt að lifa eftir því. Því varð auðveldara og auðveldara fyrir mig að einangrast og fara í spilakassa. Ég var svo brotinn inni í mér að ég taldi eigendur sjoppanna vera vini mína því þeir yrtu á mig.“

Stal fermingarpeningum systur sinnar

Óheiðarleikinn sem fylgir spilafíkn magnaðist upp í Óskari og þegar hann var sautján ára gerði hann svolítið sem sumir myndu telja ófyrirgefanlegt.

Óskar segir mikinn óheiðarleika fylgja spilafíkn. „Yngri systir mín fermdist og ég stal fermingarpeningunum hennar, sem á þeim tíma voru fimmtíu til sextíu þúsund. Ég tók ekki allt í einu heldur stal smátt og smátt. Í sjálfsblekkingunni á þeim tíma hélt ég að ég gæti unnið, tekið út vinninginn og skilað peningunum áður en þetta kæmist upp. En kassinn étur alltaf allt saman.

Mynd/Pixabay

Þetta komst síðan auðvitað upp því það kom enginn annar til greina. Alltaf þegar eitthvað hvarf beindust spjótin að mér og fólk fór fljótt að hætta að treysta mér,“ segir Óskar og bætir við að hann eigi enn eftir að gera upp þetta atvik að fullu með yngri systur sinni, þó samband þeirra sé gott í dag.

Frá átján ára aldri og fram til 24 ára breytti Óskar um vinahóp. Sá hópur hafði engan áhuga á spilakössum og á þeim tíma spilaði Óskar minna. Hann spilaði þó, sem gerði það að verkum að vinirnir fjarlægðust hann alltaf meira og meira.

„Ég byrjaði að ljúga og lygarnar náðu mér alltaf á endanum. Maður heldur þessu ekki leyndu. Maður heldur að enginn viti neitt en auðvitað vita allir hvað er í gangi.“

Geðveikin út úr korti

Upp úr 24 ára aldri tók við hörð spilakassaspilun þar sem Óskar spilaði frá sér allt í Gullnámunni þar til hann varð 33 ára.

„Frá 24 ára til 33 ára þá keypti ég ekki eina einustu flík. Einu fötin sem ég átti var það sem mamma gaf mér á jólunum. Ég bjó hjá foreldrum mínum og gat ekki séð um sjálfan mig. Ég vann og var með tekjur en þær fóru allar í spilakassa. Fljótlega setti ég upp kerfi með móður minni þar sem launin mín voru lög inn á hana. Ég var samt mjög útsmoginn að væla út úr henni peninga því þetta voru jú mínir peningar. Ég var algjörlega stjórnlaus þessi níu ár. Ég var harður spilafíkill. Ég laug, ég sveik, ég stal.“

Hann lýsir þessu tímabili sem biluðu bulli. Hann var byrjaður að leita á netinu að leiðum til að svindla á kassanum og fékk brjálæðislegar hugmyndir sem hann framkvæmdi aldrei.

„Geðveikin var út úr öllu korti. Ég lifði í núvitund en ekki í vitund. Ég lifði í mómentinu. Það var ekkert á morgun eða á eftir,“ segir Óskar og rifjar upp eitt eftirminnilegt atvik. „Ég var að vinna við að leggja Epoxy gólf sem er erfið vinna en vel borguð. Ég fékk útborgað 23. desember og átti þá eftir að kaupa allar jólagjafir. Ég fékk 378 þúsund krónur útborgaðar, kláraði allan peninginn í spilakössum sama dag, hringdi svo í vinnuveitandann og bað um 100 þúsund krónur í viðbót. Sá peningur kláraðist líka í spilakassanum. Ég borðaði ekkert allan daginn út af spennu því ég vissi að ég væri að fara fá útborgað. Ég tapaði öllum peningunum í spilakössum niður í bæ og labbaði upp í Kópavog.“

Þá kom von

Stuttu eftir 33ja ára aldurinn missti fjölskyldan þolinmæðina og Óskar var heimilislaus. Hann svaf á sófanum hjá vini sínum og eitt kvöld áttu þeir vinirnir samtal sem öllu breytti.

„Hann tók eftir því að þegar að voru nokkrir dagar í mánaðamót þá varð ég alltaf mjög spenntur. Hann spurði mig af hverju ég væri svona spenntur og uppstökkur. Þá kviknaði ljós hjá mér og ég sagði við hann:

Ég er svo kvíðinn því ég er að fara að fá útborgað.

Út af spilafíkninni? spurði hann.

Ég játaði.

Þá spurði hann mig:

Óskar, ertu ekki búinn að styrkja þessi samtök alveg nóg? Er ekki fullt af hlutum sem þú þarft að gera fyrir sjálfan þig?

Við spjölluðum saman allt kvöldið og hann bað mig um að skrifa niður fimm hluti sem ég þurfti eða langaði í. Við ákváðum að þegar ég fengi útborgað myndum við fara í Kringluna saman og kaupa þessa hluti og ég mætti síðan eyða afganginum í spilakassa. Við gerðum þetta og mér fannst ofboðslega gott að hann studdi mig í þessu.

Ég keypti nýja skó, buxur, úlpu og eitthvað fleira. Síðan fór ég í spilakassa og átti fjörutíu þúsund krónur sem ég gat eytt. Ég eyddi tuttugu þúsund krónum en tímdi ekki að eyða restinni. Þá kviknaði von. Eitthvað sem ég ákvað að halda í,“ segir Óskar.

Hann hélt uppteknum hætti næstu mánuði, kom á sambandi við foreldra sína og flutti aftur heim. Það tók hann sex mánuði að hætta að spila og síðan eru liðin níu ár. Á þessum níu árum hefur hann spilað þrisvar sinnum og á langt í land í sjálfsvinnu er varðar spilafíkn. Hann glímdi líka við áfengisfíkn og er því virkur innan AA samtakanna.

„Því meira sem ég vinn í sjálfum mér varðandi áfengisfíknina því meira sé ég að spilafíknin er lokaður kafli sem ég þarf að opna. Alveg sama hve sársaukafullur þessi kafli verður þá verð ég aldrei heill fyrr en ég fletti hverri einustu blaðsíðu,“ segir Óskar.

Hann telur ekki pólitískan vilja til að loka spilakössum en er á þeirri skoðun að það þurfi að setja upp einhvers konar kerfi hér á landi í kringum þessa starfsemi.

„Auðvitað myndi ég vilja loka þessu en við búum í nútímasamfélagi. Almennt séð er ég á móti því að banna hluti. Ef fólk ætlar sér að spila þá fer það að spila. Það er mjög gott að halda áfram forvörnum og best væri ef hægt væri að búa til kerfi líkt og öll Norðurlöndin hafa gert. Í Noregi eru spilakort þar sem hægt er að sjá nákvæmlega hverju hefur verið eytt af því.

Ég held að það væri áhrifaríkt líka að handhafar kortanna fengju yfirlit á þriggja mánaða fresti. Þetta kerfi yrði að vera opinbert því ég treysti ekki einkaaðilum til að reka þetta. Ég er einnig þeirrar skoðunar að þeir sem fara í meðferð við spilafíkn ættu að fara í tveggja ára bann í spilakössum.“

Bjarni er í viðtali við Lokum.is. Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Hér má lesa fleiri sögur.

Hér má lesa fleiri sláandi sögur á LOKUM.IS og á Facebook-síðu þeirra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -