Fjölmargir minnast nú Árna Grétars Jóhannessonar Futuregrapher, raftónlistamans og leikskólakennara, sem lést í gær eftir að hafa barist fyrir lífi sínu síðan á gamlársdag þegar bifreið hans lenti í höfninni við Ægisgarð. Ólafur Jóhannesson, bróðir Árna Grétars, sagði frá andláti hans á Facebook.
„Elsku hjartans fallegi vinur minn Árni Grétar. Einlægur, hjartahlýr og óendanlega kærleiksríkur. Englar himins grétu í dag,“ skrifar Frosti Logason fjölmiðlamaður um fráfall vinar síns.
Fjölmargir aðrir minnast hans í dag. Þeirra á meðal er Jón Ólafsson tónlistarmaður sem hefur starfað með honum að tónlistarsköpun.
„Vinur og kollegi, er allur og veröldin er fátækari fyrir vikið. Hans eigið líf var ekki dans á rósum á sama tíma og æði mörgum fannst hvergi betra að dansa en þegar hann var uppi á sviði. Árni mætti margvíslegu mótlæti en steig alltaf upp; oft bjartsýnn en líka raunsær,“ skrifar Jón á Facebook.
Árni Grétar ólst upp á Tálknafirði. Hann missti foreldra sína í með stuttu millibili í bernsku.