Á miðnætti tók við ný reglugerð um samkomutakmarkanir, nú mega 200 manns koma saman innandyra og fjöldatakmarkanir utandyra felld niður. Engin takmörkun er á fjölda fólks í verslunum og má nú halda þúsund manna sitjandi viðburði, þó með áframhaldandi grímuskyldu. Þá má einnig hafa hlé á viðburðum og bjóða upp á veitingar.
Opnunartími staða með vínveitingaleyfi lengist um eina klukkustund eða fram á miðnætti.
Skólaböll eru nú leyfð á ný án nokkura takmarkana. Auk þessa er sóttkví alfarið afnumin og eru því tæplega 10 þúsund manns sem losnuðu á miðnætti. Fólk sem er útsett smiti er þó hvatt til að fara áfram varlega og gæti að persónulegum sóttvörnum.
Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar mega nú taka á móti gestum með fullum afköstum og íþróttakeppnir og æfingar mega fara fram í 200 manna hólfum.