Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að taka þurfi upp aðra nálgun í skimunum fyrir COVID-19 veirunni í ljósi fregna þess efnis að Íslensk erfðagreining ætli að hætta skimunum þann 13. júlí.
„Það er ljóst að við þurfum að taka upp aðra nálgun í ljósi þessa,“ segir Þórólfur, í samtali við Vísi.
Spurður hvort þetta hafi verið viðbúið, í ljósi þess sem áður hefur komið fram, segist hann nú ekki alveg geta sagt til um það. „En auðvitað er fyrirtækið Íslensk erfðagreining í öðrum störfum og eru búin að hliðra öllu til hliðar á meðan á þessu stendur, og auðvitað vissi maður það að það kæmi að einhverjum endapunkti þar, þau eru í öðrum verkefnum,“ segir Þórólfur.
Hann tekur fram að Íslensk erfðagreining hafi staðið sig frábærlega í baráttunni við útbreiðslu COVID-19. „Þau eru búin að vinna frábært starf fyrir okkur öll,“ segir hann við Vísi.