Sóttvarnalæknir segir koma til greina að skoða hvort fara þurfi nýjar leiðir til að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma á Íslandi, en greint var frá því í dag að útbreiðsla sárasóttar og lekanda hefði aukist töluvert hérlendis á síðasta ári. Klamydíu-smitum fækkaði hins vegar í fyrra og sömuleiðis innlendum HIV-smitum.
Útbreiðsla sárasóttar og lekanda hefur aukist umtalsvert á Íslandi á síðustu árum og hélt sú aukning áfram á síðasta ári, að því er fram kemur í Farsóttafréttum sóttvarnalæknis. „Við erum að skoða þetta með Landspítalanum og athuga hvort þetta tengist einhverri áhættuhegðun. Við bara vitum það ekki enn sem komið er og þurfum að skoða það með fleiri aðilum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá embætti landlæknis, spurður út í mögulegar ástæður þess að útbreiðsla sárasóttar og lekanda jókst hér á síðasta ári. Hann bætir við að embættið sé ekki ánægt með þessa þróun.
RÚV fjallaði um málið fyrr í dag og vitnaði í Farsóttarfréttir sóttvarnarlæknis. Þar kemur fram að fleiri greindust með lekanda á árinu 2019 í samanburði við árin á undan. Alls höfðu 120 greinst með lekanda í árslok 2019, af þeim voru 90 prósent karlmenn og voru 73 prósent með íslenskt ríkisfang. Í mesta áhættuhópnum reyndust vera íslenskir karlmenn sem hafa mök við karlmenn og eru á aldrinum 20 til 44 ára. Þá greindust 38 með sárasótt á síðasta ári og er það aukning frá fyrra ári. Mikill meirihluti greindra voru karlar, eða 94 prósent, flestir á aldrinum 25 til 44 ára. Meirihluti þeirra var með íslenskt ríkisfang, eða 51 prósent en frá því er greint að hlutur karla af erlendum uppruna hafi farið vaxandi síðustu ár.
Spurður hvort unnið sé nægilegt forvarnarstarf til að draga úr útbreiðslu sjúkdómanna segir Þórólfur að embættið hafi margsinnis birt upplýsingar og hvatt til aðgerða í tengslum við kynsjúkdóma. Hins vegar sé spurning hvort fara þurfi nýjar leiðir til að koma upplýsingunum áleiðis til réttra hópa.
„Við þurfum að reyna að funda með grasrótarsamtökum eins og Samtökunum ’78 og skoða hvaða leiðir við getum farið til að koma þeim betur til skila, því við þurfum að hugsa nýjar leiðir til þess að ná til þessa hóps sem er að smitast og ég held að það sé nokkuð sýnt að smitin séu flest hjá körlum sem stunda kynlíf með öðrum körlum.“
Færri greindust með klamydíu og innlendum HIV-smitum fækkaði
Þórólfur kveðst aftur á móti ekki geta svarað því hvort búast megi við áframhaldandi aukningu í smitum á þessu ári. „En við fylgjumst með þessu mánaðarlega þannig að við sjáum fljótlega hvert stefnir,“ tekur hann fram. „En það er ekki nóg að fylgjast með einhverjum tölum, við þurfum að grípa til aðgerða. Því þótt auðvelt sé að meðhöndla þessa sjúkdóma hjá þessum tilteknu hópum sem eru helst að smitast þá er mikilvægt að lækka þessar tölur, því þessir sjúkdómar geta haft alvarleg áhrif á aðra hópa, til dæmis þungaðar konur.“
Þórólfur segir góðu fréttirnar hins vegar vera þær að allt bendi til að dregið hafi úr klamydíu-smitum á Íslandi í fyrra. Þá hafi innlendum HIV-smitum fækkað umtalsvert.