Það er hægt að spara stórfé með því að kaupa sér aðgang að Munasafni Reykjavíkur. Verkefnið er nokkuð sem engin umhverfissinni ætti að láta framhjá sér fara. Safnið hefur verið starfrækt á Íslandi í þrjú ár. Þar er hægt að leigja verkfæri, slátturvélar, hrærivél, poppvél, kökuform, hitabrúsa, auka rúm ef gest ber að garði, borð, ýmislegt fyrir afmæli, veislubúnað og fleira. Margt annað er í boði eins og aðgangur að verkfærum, vinnuaðstaða og hönnuðir geta fengið að vera viku í senn með sínar vörur. Þetta er þó ekki það eina því starfsemin er ótrúlega fjölbreytt. Mannlíf leit í heimsókn á Munasafn Reykjavíkur á dögunum.
Munasafn Reykjavíkur
Að Laugarvegi 51 er mjög áhugaverð starfsemi sem ber nafnið Munasafn Reykjavíkur/Reykjavík Tool library. Munasafnið virkar nákvæmlega eins og bókasafn, nema leigð eru út verkfæri og ýmislegt annað í stað bóka. Þú kaupir áskrift annað hvort eitt ár eða hálft ár á mjög sanngjörnu verði og þú getur byrjað að nýta þjónustuna. Stofnandi safnsins og starfseminnar í kringum það er Anna Carolina W De Matos, hún er 34 ára og er upprunalega frá Brasilíu. Það er mikill kraftur í henni og hún hefur jákvæða sýn á lífið. Hún sá fljótlega, eftir að hún fluttist til Íslands, að ekkert þessu líkt væri hér á landi. Önnu þótti það miður, verandi umhverfisverndarsinnuð manneskja Hún sló þá til og hóf þessa þriggja ára vegferð.
Hringrásarsetur – Samfélagslegt verkefni
Munasafnið sem var opnað árið 2018, er samfélagsverkefni og er ekki rekið í ágóðaskyni. Hugmyndin er að safnið verði sjálfbært. Fjármagnið kemur frá meðlimaáskriftum, hópfjármögnunum, styrkjum og frjálsum framlögum. Þetta safn er hið eina sinnar tegundar á Íslandi. Hægt er að spara töluverðar fjárhæðir, hvort sem fara á í framkvæmdir á heimilinu, garðinum, sinna áhugamálum, halda veislu, ferðast og margt annað. Það stendur til að breyta starfseminni alfarið í frjáls félagasamtök og er komið nafn á samtökin, Hringrásarsetur. Hringrásarsetrið mun halda utan um alla starfsemina, Munasafnið, Reddingakaffi og Hringrásarsafnið. Það er trú Önnu að verkefnin munu með þessarri breytingu verða sýnilegri, meira tekið eftir þeim og þau fái þann stuðning sem þau telja sig eiga skilið. Safnið er rekið eftir hugmyndafræði Hringrásarkerfisins og slagorðið er: Við trúum því að við séum ríkara samfélag ef við deilum hlutum.
DIY Miðstöð
Munasafnið er alls ekki það eina sem starfsemin hefur upp á að bjóða. Á neðri hæðinni er DIY miðstöð, prýðileg aðstaða sem fólk getur haft aðgang að. Þar er að finna verkfæri og ýmislegt annað, stærri verkfæri, sagir og þess háttar. Þar eru einnig borð sem hægt er að sitja við krefjist verkefnið sem viðkomandi vinnur að, þess. Þegar Mannlíf bar að garði var þar strákur að vinna að flottu verkefni, en hann er nýútskrifaður sem húsasmiður, en hefur enga aðstöðu né fjármagn og aðgangur að aðstöðu og verkfærum á mjög sanngjörnu verði skiptir hann öllu máli. Þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í handveki eru einnig velkomnir. Þessi hluti starfseminnar hefur raskast töluvert vegna Covid en það hefur verið hægt að bóka sér tíma. DIY miðstöðin bíður upp á óteljandi möguleika. Meðlimir getað komið og notað þyngri og stærri verkfæri en fólk almennt er með heima fyrir.
Reddingakaffi
Reddingakaffi/ Repair Café er síðan enn eitt verkefnið, en það eru viðburðir sem haldnir eru víða í Reyljavík og von er til þess að færa út kvíarnar og koma af stað viðburðum sem þessum um allt land. Viðburðir hafa raskast vegna Covid. Þegar að þeir voru í gangi segir Anna að tekist hafi að bjarga 642 kílóum af efnivið, hjólum, fötum, raftækjum og fleiru frá því að enda í landfyllingu. Hjá okkur starfa laghentir og fjölhæfir sjálfboðaliðar sem geta gert við hina ýmsu hluti. Anna og fjórir aðrir nefndarmeðlimir hafa verið að hafa samband við sjálboðaliða síðustu þriggja ára en það stendur til að koma Reddingakaffi í gang aftur nú þegar létt hefur á takmörkunum vegna covid. Von Önnu er að fara út um allt land og kynna verkefnið og hjálpa öllum sem vilja að koma á fót slíkum viðburði í sínum heimabæ. Vonandi fer verkefnið í gang á ný í apríl.
Hringrásarsafn
Hringrásarsafn er verkefni sem samtökin verða með í samstarfi við bókasöfnin á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða sjálfsafgreiðslustöð þar sem fólk getur sjálft tekið á leigu verkfæri og þess háttar. Verkefnið er í þróun og spennandi verður að sjá hvað nánasta framtíð ber í skauti sér.
Aðstaða fyrir hönnuði
Hönnuðir geta fengið að vera viku í senn með vörurnar sínar til sölu hjá Munasafninu. Þannig er dyggilega stutt við bakið á þeim sem er frábært. Vikuna sem Mannlíf kíkti í heimsókn voru skosku bræðurnir Rik (42)og Ross McNair (25) með sína hönnun á staðnum.Rik hefur verið á Íslandi síðan 2012 og Ross síðan 2017. Þeir bræður hanna undir nafninu Endurtakk, föt og fleira úr gömlum efnum. Það geta verið teppi, gardínur og bara hvaða efni sem er, allt gamalt og endurunnið í fallegan fatnað og fleira. Ross var klæddur fallegri peysu saumaðri úr teppi frá Icelandair.