Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
8.1 C
Reykjavik

Spennt að byrja ferilinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ungur íslenskur dansari, Kristín Marja Ómarsdóttir, hefur verið ráðin að ballettflokknum við Óperuhúsið í Graz. Hún segir mikinn heiður að vinna með flokknum enda hafi margir af fremstu dönsurum heims sýnt með honum í gegnum tíðina.

Kristín Marja Ómardóttir komst inn í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz. Hún segir það hafa verið ólýsanlega tilfinningu. „Stjórnandinn þurfti að segja mér það tvisvar svo ég tryði því.“

„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref. Svo er þetta auðvitað heilmikill heiður líka því eftir því sem ég best veit þá er ég ekki bara sú eina úr minni kynslóð af dönsurum á Íslandi sem hafa dansað með þessum ballettflokki, heldur líka ein fárra á Íslandi sem hafa á síðustu árum fengið tækifæri til að gerast atvinnudansari hjá klassískum ballettdansflokki,“ segir Kristín Marja glöð í bragði.

Fyrsta verkefni Kristínar Marju með ballettflokknum verður uppsetning hans á dansverkinu Sandman eftir Andreas Heise í október. „Verkið byggir á hinni frægu sögu „Der Sandmann“ eftir ETA Hoffmann og er neó-klassískt. En neó-klassík er form sem mér finnst vera mjög heillandi af því að það er mitt á milli þess að vera klassík og nútímadans og ég æfði klassík lengi og langaði prófa eitthvað nýtt án þess þó að vilja víkja alveg frá henni,“ útskýrir hún.

Hefur gengið vel erlendis
Kristín Marja er einungis tvítug að aldri en á engu að síður „langan“ feril að baki sem dansari. Fjögurra ára byrjaði hún að æfa ballett í Ballettskóla Eddu Scheving og fimm árum síðar lá leiðin í Listdansskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist átján ára af klassískri framhaldsbraut. Meðan á náminu í skólanum stóð keppti hún í þrígang fyrir Íslands hönd í ballettkeppni í Svíþjóð og sótti námskeið hjá Konunglega danska ballettinum og í Palluca-dansháskólanum í Dresden í Þýskalandi. Þá var hún í fámennum hópi sem komst inn í Konuglega sænska ballettskólann og hefur eftir nám meðal annars dansað í Óperudraugnum, Rauðu myllunni og á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.

„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref.“

Spurð hvað sé ólíkt með dansheiminum hér heima og erlendis segir hún að stærðin sé án efa einn helsti munurinn. „Dansheimurinn er miklu minni á Íslandi. Við erum með einn dansflokk sem leggur áherslu á nútímadans en úti eru alls konar flokkar með ólíkar áherslur. Það sorglega er að danslistin gæti verið miklu stærri á Íslandi ef við settum bara meira fjármagn í hana, því við eigum góða kennara og efnilega dansara sem myndu gjarnan vilja dansa á Íslandi ef aðstæður væru ekki þannig þeir þyrftu að fara út. Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því Íslendingar hafa greinilega áhuga á danslist eins og sést bara af því hvað selst vel á sýningar erlendra dansflokka á Íslandi.“

Harður heimur
En dansheimurinn úti, er hann ekki harður líka? „Jú, rosalega,“ játar hún. „Til dæmis vorum við rúmlega 100 krakkar sem sóttum um að komast í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz og dansprufan tók tæpa átta tíma. Þegar upp var staðið vorum við ellefu. Þannig að kröfurnar eru strangar og samkeppnin mikil. Maður er alltaf að berjast um besta hlutverkið og stöðuna. Til dæmis veit ég ekkert hvernig hópurinn í Óperuhúsinu í Graz verður, hvort hann verður samheldinn eða ekki. Ég kynntist nokkrum krökkum í prufunni og þau virtust öll vera indæl, en annars á bara eftir að koma í ljós hvernig mórallinn verður. Auðvitað vonar maður samt að hann verði góður.“

Þú virðist ekkert stressuð. „Nei, alls ekki. Það þýðir ekki neitt. Þá skemmir maður bara fyrir sjálfum sér. Ég er búin að fara í svo margar prufur að ég veit núna að eina sem virkar er að reyna að hafa gaman og það ætla ég að reyna að gera eftir fremsta megni í Austurríki og er með góðan stuðning frá vinum og vandamönnum. Svo minni ég mig líka á hvað mig hefur lengi dreymt um að komast inn í dansflokk af þessu tagi og fá að prófa mörg og ólík verk og vonandi dansa út um allan heim. Þannig að núna ég er bara spennt fyrir þessu og að byrja þennan feril,“ segir hún glöð.

- Auglýsing -

Hægt er að fylgjast með ævintýrun Kristínar á Instagram, hún er með notendanafnið kristinmarja

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -