Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Spillingarhætta fyrir hendi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir fjármálahrunið árið 2008 hrundi traust til helstu stofnana samfélagsins og þá sérstaklega til Alþingis og fjármálastofnana. Illa hefur gengið hjá stjórnvöldum að endurheimta traustið í kjölfarið og í niðurstöðum síðustu könnunar Gallups, sem birt var í febrúar 2019, um traust til stofnana kemur í ljós að traust til Alþingis mælist einungis 18 prósent. Það er um 11 prósentustigum minna en í könnun Gallups árið áður.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lögð umtalsverð áhersla á traust. Þar stendur meðal annars: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“ Til að fylgja þessu markmiði eftir skipaði Katrín starfshóp strax í janúar 2018 sem hafði það hlutverk að efla traust á stjórnmál og stjórnsýslu.
Starfshópurinn skilaði skýrslu um málefnið í september sama ár þar sem lagðar voru fram 25 tillögur til að efla traust á stjórnsýslunni. Í skýrslu starfshópsins segir að Íslendingar hafi farið sér hægar en nágrannaþjóðir í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og að hér á landi hafi minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið.

Þar á meðal eru tilmæli frá GRECO, samtökum ríkja innan Evrópuráðsins, sem sett voru fram í fimmtu úttekt samtakanna á Íslandi. Þá var mælst til þess að settar yrðu reglur um samskipti æðstu handhafa framkvæmdavalds við hagsmunaverði og aðra sem leitast við að hafa áhrif á störf stjórnvalda.

Afar takmarkaðar reglur hafa verið settar hér á landi um hagsmunavörslu, samkvæmt skýrslu starfshópsins. Þingmönnum, ráðherrum, aðstoðarmönnum þeirra eða embættismönnum er til að mynda ekki skylt að skrá samskipti sín við hagsmunaaðila sérstaklega, hvort sem um er að ræða bein tengsl við fyrirtæki eða forystumenn þeirra eða við hagsmunaverði fyrirtækja eða samtaka.

Starfshópurinn taldi það mikilvægt að gæta sérstaklega að þremur þáttum í samskiptum stjórnvalda við hagsmunaaðila. Í fyrsta lagi þyrfti að vera hafið yfir allan vafa að jafnræði ríkti um aðkomu hagsmunaaðila. Í öðru lagi að tryggja að ekki væri hægt að halda því fram að sérhagsmunir væru teknir fram yfir almannahagsmuni og í þriðja lagi þyrfti að ríkja gagnsæi um aðkomu hagsmunaaðila, þar á meðal um samskipti við ráðherra, þingmenn og opinbera starfsmenn.

Í kjölfar skýrslunnar hefur forsætisráðuneytið birt áform um lagasetningu þess efnis í samráðsgátt stjórnvalda sem byggð eru á tillögum starfshópsins. Ráðuneytið hyggst meðal annars gera öllum aðilum sem sinna hagsmunavörslu – þeim sem hafa það að aðalstarfi að tala máli einkaaðila, eins eða fleiri, gagnvart handhöfum ríkisvalds – skylt að tilkynna sig til stjórnvalda svo unnt sé að birta opinberlega skrá yfir þá. Þar á meðal eru almannatenglar og lögmenn sem koma fram fyrir hönd tiltekinna aðila. Og auðvitað þeir sem starfa beint fyrir hagsmunasamtök.

Þá gerir ráðuneytið ráð fyrir að skráin verði birt í B-deild Stjórnartíðinda og á vef Stjórnarráðs Íslands. Jafnframt segir ráðuneytið að skoða þurfi hvort og þá hvaða viðurlög eigi að vera við því að vanrækja tilkynningaskylduna.

- Auglýsing -

Enn fremur er fyrirhugað að mælt verði fyrir því í lagafrumvarpinu að ráðherrar, aðstoðarmenn, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar geti ekki í tiltekinn tíma eftir að opinberu starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hagsmunaverði. Gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að framangreindir aðilar þurfi að bíða í átta mánuði frá starfslokum en þó með undantekningum.

Starfshópurinn lagði þessa tillögu fram í ljósi þess að þegar einstaklingur sem starfað hefur fyrir hið opinbera færir sig úr starfi er annars vegar hætta á að hagsmunir verðandi vinnuveitanda geti haft áhrif á ákvarðanir á meðan einstaklingur starfar enn fyrir hið opinbera. Hins vegar er sá möguleiki fyrir hendi að upplýsingar sem viðkomandi öðlast í starfi sínu séu nýttar á ótilhlýðilegan hátt í þágu einkaaðila þegar skipt er um starfsvettvang, en slíkt getur bæði haft ólögmæt áhrif á samkeppni og gengið gegn opinberum hagsmunum.

Ítarlega fréttaskýringu má lesa um málið í nýjasta Mannlífi og á Kjarninn.is

- Auglýsing -

Texti / Birna Stefánsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -