Mánudagur 23. desember, 2024
-0 C
Reykjavik

Sprenging í sölu orkudrykkja á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sprenging hefur orðið í sölu orkudrykkja á Íslandi síðustu ár en í hittifyrra seldust tæplega 5,2 milljónir af 330 millilítra dósum vinsælustu drykkjanna. Virðast slíkir drykkir einkum vera vinsælir meðal ungmenna og eiga unglingar á Akureyri metið í neyslu þeirra.

Niðurstöður úr rannsókninni Ungt fólk sem framkvæmd hefur verið árlega síðustu tvo áratugi af Rannsóknarmiðstöðinni Rannsókn og greining sýnir að unglingar á Akureyri drekka mun meira af orkudrykkjum en jafnaldrar þeirra annars staðar á landinu.

Þrjátíu prósent þeirra drekka orkudrykk daglega en landsmeðaltalið er um tíu prósent. Munurinn er enn meiri hjá unglingum fæddum 2001 en 48 prósent þeirra sem búa á Akureyri segjast drekka einn eða fleiri orkudrykki á dag en landsmeðaltalið meðal jafnaldra þeirra er 14 prósent. Til að átta sig á þessari miklu aukningu má benda á að árið 2014 sögðust aðeins um 5% unglinga í 10. bekk drekka orkudrykki í einhverjum mæli.

Þetta er væntanlega einhver tískubylgja.

Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarnar- og frístundadeildar Akureyrarbæjar

Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarnar- og frístundadeildar Akureyrarbæjar, segir í samtali við Mannlíf að ekki sé einfalt að finna svarið við því hvers vegna þetta hlutfall sé svo hátt á Akureyri. „Þetta er væntanlega einhver tískubylgja og smitáhrif en við höfum ekkert haldbært um það,“ segir hún og bætir við að aukin neysla unglinga á orkudrykkjum sé mikið áhyggjuefni og að markaðssetning þeirra hafi breyst mikið á undanförnum árum.

„Áður miðaðist hún að því að ná til íþróttafólks en miðar nú meira að því að ná til barna og unglinga,“ bendir hún á.

Selja unglingum bannaða drykki

Að sögn Zulema Sullca Porta, fagsviðsstjóra neytendaverndar hjá Matvælastofnun, er engin almenn skilgreining til fyrir svokallaða orkudrykki og innan Evrópu eru hvorki samræmdar reglur um hvaða efni þessir drykkir mega innihalda né í hvaða magni. Hins vegar sé stranglega bannað á Íslandi að selja ungmennum undir 18 ára aldri drykki sem innihaldi meira en 320 mg/l af koffíni, þar sem talið er að heilsu þeirra geti verið ógnað vegna þessara drykkja þar sem að með neyslu þeirra geti þau á stuttum tíma innbyrt það magn koffíns sem gæti valdið bráðum eitrunaráhrifum.

- Auglýsing -

„Samkvæmt reglugerð þá megum við hjá Matvælastofnun setja kröfur og skilyrði á markaðssetningu matvæla í þessu tilfelli orkudrykki sem innihalda meira en 320 mg/l af koffíni,“ bendir hún á.

Það sé á ábyrgð söluaðila (leyfishafa) að koma þeim upplýsingum á framfæri við smásöluaðila að slíka vöru megi ekki selja til barna yngri en 18 ára. Matvælastofnun geri kröfur um að leyfishafi upplýsi smásöluaðila, þ.e. verslanir eða sölustaði um það og geri ráðstafanir í verslunum/sölustöðum þannig að vörurnar séu ekki aðgengilegar börnum undir 18 ára. Brot á því falli undir matvælalög og geti orðið til þess að sala vörunnar verði stöðvuð og innkölluð.

Eftirliti ábótavant

- Auglýsing -

Starfsmenn matvöruverslana kvarta hins vegar undan því að erfitt geti verið að fylgjast með því hvort ungmenni séu að kaupa sterkustu orkudrykkina, m.a. vegna þess hversu svipaðar í útliti dósir drykkjanna geti verið. „Þetta eru sterkustu drykkirnir,“ segir starfsmaður ónefndrar verslunar sem blaðamaður Mannlífs heimsótti og bendir á nokkrar dósir fyrir miðri hillu í versluninni.

Það er því ekki óvarlegt að álykta að auðvelt sé fyrir ungmenni undir lögaldri að komast yfir sterkustu orkudrykkina.

„Ég má ekki selja þá börnum yngri en 18 ára, og þessa hérna má ég ekki selja börnum yngri en 15 ára. Vegna þessa hversu svipað útlit dósanna er eiga hins vegar starfsmenn, sérstaklega óvanir starfsmenn, stundum erfitt með að átta sig á um hvaða drykki gildi sérstakar aldurstakmarkanir. Það er því ekki óvarlegt að álykta að auðvelt sé fyrir ungmenni undir lögaldri að komast yfir sterkustu orkudrykkina.“

Orkudrykkir seldir „í bílförmum út í áfengi“

Íslensk ungmenni eru þó ekki þau einu sem eru sólgin í orkudrykki því slíkir drykkir njóta mikilla vinsælda á skemmtistöðum. Veitingamaður einn í Reykjavík, sem vill ekki láta nafns síns getið, segist til dæmis aldrei hafa selt jafnmikið af orkudrykkjum út í áfengi og nú, þó hafi hann verið lengi í faginu. Hann segist vera að selja blönduðu drykkina í bílförmum.

„Nýjasta tískan er að óvirkir alkóhólistar og aðrir sem eru hættir að drekka eru hreinlega farnir að fara á orkudrykkjafyllirí, eru að drekka upp í 8-9 svona drykki á kvöldi. Það er voðalegt að horfa upp á þetta, því þessir drykkir eru algert eitur.“

Þetta er áhugavert því samkvæmt matvælalögum er bannað að framleiða eða selja áfengi með íblönduðu koffíni, nema með sérstöku leyfi. Ekkert fyrirtæki á Íslandi hefur sótt um slíkt leyfi.

Að sögn Zulema Sullca Porta, fagsviðsstjóra neytendaverndar hjá Matvælastofnun, ná matvælalögin ekki íblöndun orkudrykkja með háu koffíninnihaldi. „Ef fyrirtæki er með orkudrykki sem eru leyfilegir og eru að blanda þá út í áfengi í formi kokteila og selja áfram, þá er ekki umfjöllun um það í reglugerðinni. Það er eitthvað sem þyrfti að skoða,“ segir hún en bætir við að flókið væri að hafa eftirlit með slíku ef sérstakar reglur yrðu settar um sölu slíkra drykkja. Leyfisumsóknum hafi verið að fjölga undanfarin ár.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -