Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Spyr hvort stjórnin sé stikkfrí: „Ríkisstjórninni ber að stíga inn og leggja myndarlega í púkkið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Árni Stefansson bæjarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands, spyr einfaldlega hvort ríkisstjórnin sé stikk­frí í kjara­deilunum:

„Hvernig er unnt að höggva á hnútinn í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins? Það virðist langt til lands og harkan færist í aukana með áformum atvinnurekenda um verkbann á 20 þúsund félaga verkalýðsfélagsins. Það er olía á eld í þessari kjaradeilu.“

Hann bendir á að „vissulega er þrengra um vik um nýjar lausnir, þegar fyrir liggur að 80 þúsund launamanna hafa þegar samþykkt kjarasamning; fólk í Starfsgreinasambandinu og Verslunarmannafélaginu. Þegar atvinnurekendur eru síðan farnir að kalla eftir lagasetningu á verkfallið og kjaradeiluna, þar sem Alþingi setur lög sem banna verkföll, þá er í óefni komið.“

Hann bætir því við að „ekki er ósennilegt að stuðningur við slíkt sé að finna í herbúðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins, en vart verður því trúað fyrirfram að Vinstri grænir taki slíkt í mál. Þar er þó litla staðfestu að finna eins og dæmin sanna.“

Guðmundur Árni telur að „flestir hljóta að vera sammála því, að lægstu laun á landinu duga engan veginn fyrir framfærslu. Það er óviðunandi. Úr því þarf að bæta. En það er unnt að gera með fleiru en krónutöluhækkunum og breytingum á launatöxtum. Og kem ég þá að kjarna máls. Svo virðist sem sitjandi ríkisstjórn sé algjörlega stikkfrí í þessari kjaradeilu og er á hliðarlínunni eins og hver annar áhorfandi. Það er óviðunandi.“

Hann bendir á að „ríkisstjórninni ber að stíga inn og leggja myndarlega í púkkið. Nokkrar leiðir eru færar í því efni.

- Auglýsing -

Ein er sú að setja á leiguþak eða leigubremsu, sem tryggir stöðu og kjör leigjenda í landinu. Þetta hefur jafnaðarfólk kallað eftir, sem og verkalýðshreyfingin, en ríkisstjórninin skellt við skollaeyrum. Þessi aðgerð skiptir máli. Hún kostar ekki peninga úr ríkisstjóði.

Önnur leið er jákvæð inngrip í húsnæðiskerfið; kerfi sem er nú um stundir venjulegum launamanni fullkomlega ofviða. Fleiri leiðir eru færar en pólitískan vilja þarf til.“

Guðmundur Árni segir að lokum að „þessi aðkoma ríkisvaldsins myndi einnig greiða fyrir komandi samningum við opinbera starfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga. Sem og bæta í nýgerða samninga. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa til ríkisstjórnarinnar að verkin verði látin tala. Það er að vísu eitthvað sem sjaldan sést, því sitjandi ríkisstjórn og forystufólk hennar virðist hafa þann einasta metnað að sitja meðan sætt er. Ágreiningur er um minni og stærri mál og þau eru „leyst“ með aðgerðarleysi. Það virðist þegjandi samkomulag um að gera sem minnst. En nú er ekki í boði að vera stikkfrí.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -