Fjöldi staðfestra COVID-19 smita hér á landi er kominn upp í 963 samkvæmt nýjustu tölum á covid.is. Greindum smitum hefur fjölgað um 73 á síðasta sólarhring. 18 sjúklingar eru á sjúkrahúsi vegna veirunnar er fram kemur á covid.is, þar af eru sex á gjörgæslu.
504 sýni voru rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær, 66 reyndust jákvæð. Þá voru 518 sýni rannsökuð hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær, þrjú þeirra voru jákvæð.
Alls eru 9.908 einstaklingar í sóttkví hér á landi vegna útbreiðslu veirunnar.
Samkvæmt tölum covid.is hafa 97 einstaklingar náð bata eftir að hafa smitast.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar klukkan tvö í dag. Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, verður gestur fundarins og mun hún ræða þau verkefni sem velferðarsvið borgarinnar vinnur að vegna COVID-19.