Myndlistarkonan færa, Rakel Tómasdóttir, er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Óhætt er að segja að Rakel hafi vakið mikla athygli fyrir verk sín, allt frá því að hún hélt sína fyrstu sýningu árið 2018. Auk teikninga og málverka, hefur Rakel meðal annars gefið út dagbækur, skissubók og listaverkabók, sem geymir verk eftir hana og veitir innsýn inn í líf listamannsins. Hægt er að skoða verk Rakelar inn á vefnum rakeltomas.com.
Mannlíf komst að því að Röntgen er uppáhalds skemmtistaður Rakelar, hún drekkur ekki gos og hennar mesta gleði var þegar hún vann Norðurlanda- og Evrópumeistaratitil í hópfimleikum.
Fjölskylduhagir? Þriðja hjólið í nokkrum frábærum samböndum.
Menntun/atvinna? Lærði grafíska hönnun í LHÍ en vinn í dag sem myndlistakona og leturhönnuður með smá grafík inn á milli.
Uppáhalds Sjónvarpsefni? Þessa dagana er það allt sem tengist kosningunum, en aðra tíma ársins er það allt sem Shonda Rhimes gefur frá sér.
Leikari? Cate Blanchet
Rithöfundur? Julie Houts, hún er reyndar aðallega teiknari, en blandar saman teikningum og texta mjög skemmtilega í því sem hún gerir.
Bók eða bíó? Bíó, hryllingsmyndir eru glænýtt áhugamál.
Besti matur? Sushi í góðum félagsskap.
Kók eða Pepsí? Hvorugt, hef aldrei drukkið gos. Þegar ég var lítil var það af því að mér fannst búbblurnar stinga í tunguna, en í dag af því ég byrjaði aldrei.
Fallegasti staðurinn? Lembongan sem er lítil eyja við Balí. Fór þangað fyrir tveimur árum og leið eins og ég væri mætt inn í póstkort. Finnur ekki tærari sjó til að kafa í og það að horfa ofan á kóralrif af brimbretti er minning sem gleymist seint.
Hvað er skemmtilegt? Ferðast, sörfa, snjóbretti, kynnast nýju fólki, upplifa nýja hluti og eiga rauðvínstrúnó með vinkonum sem þekkja mann betur en maður sjálfur.
Hvað er leiðinlegt? Að bíða.
Hvaða flokkur? Það breytist milli daga … og vinahópa.
Hvaða skemmtistaður? Röntgen, mitt annað heimili.
Kostir? Metnaðarfull, opin og tek hlutunum ekki of alvarlega
Lestir? Óþolinmæði og frestunarárátta. Tvenna sem fer ekkert sérstaklega vel saman.
Hver er fyndinn? Torfi litli bróðir minn, sérstaklega þegar hann er svangur og pirraður.
Hver er leiðinlegur? Ókunnugi maðurinn sem starði á mig eins og dýr í búri í gegnum gluggann á studioinu mínu um daginn.
Trúir þú á drauga? Já, en bara góða drauga, það að trúa á vonda drauga er algjör óþarfi.
Stærsta augnablikið? Ætli það hafi ekki verið augnablikið þegar ég sætti mig loksins við það að ég væri samkynhneigð, lítið augnablik sem hafði svo ótrúlega stór og margþætt áhrif á allt lífið eftir það.
Mestu vonbrigðin? Þegar Selma vann ekki Eurovision 1999.
Hver er draumurinn? Að búa til þannig líf að ég geti verið frjáls til að elta alla draumana, hverjir sem þeir eru á hverjum tíma fyrir sig.
Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Sýningin mín “Hvar ertu?” sem ég hélt í ágúst og allt sem tengdist henni.
Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Alls ekki, það væri glatað ef maður væri búin að ná öllum markmiðunum í lífinu, þegar maður nær markmiði býr maður bara til nýtt.
Manstu eftir einhverjum brandara? Æj nei, allt sem mér finnst fyndið er svona had-to-be-there dæmi.
Vandræðalegasta augnablikið? Ísland er lítið, lesbíu-samfélagið enn minna, það býður upp á allskonar vandræðaleg augnablik.
Sorglegasta stundin? Það er alltaf sorglegast að missa fólk, hvort sem manneskjan fellur frá eða fer úr lífinu manns af öðrum ástæðum.
Mesta gleðin? Það toppar ekkert að vinna Norðurlanda- eða Evrópumeistaratitil í hópfimleikum. Sigurvíman og að deila því með bestu vinkonum sínum er gleði sem er ekki hægt að lýsa.
Mikilvægast í lífinu? Að lifa lífinu lifandi og njóta þess á meðan, mynda falleg sambönd og fylgja hjartanu.