Ofurkrúttið, bangsastrákurinn og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason – einnig leikari sem og tónlistarmaður – er eftirsóttur og með ótal járn í eldinum; Rúrik er sem stendur staddur í borginni hollensku og vel reyktu, Amsterdam, við tökur á nýrri mynd; segir Rúrik að hlutverkið sé það stærsta hingað til á ferlinum.
Frá þessu greindi Rúrik á Instagram-síðu sinni í gær: Þá var hann með svokallað Q & A (beinar spurningar og bein svör) – þar sem hann gaf aðdáendum sínum tækifæri til að spyrja hann um nánast hvað sem er.
Einn hinna forvitnu vildi fá meiri upplýsingar um kvikmyndaverkefnið; sem og önnur framtíðarplön – en Rúrik gat ekki veitt meiri upplýsingar að svo stöddu.
Rúrik nefndi að þetta væri fyrsta aðalhlutverkið hans í kvikmynd; sagðist spenntur fyrir framhaldinu og framtíðinni.
Áður hefur Rúrik tekið þátt í nokkrum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum; hérlendis og erlendis; fór Rúrik meðal annars með hlutverk í íslensku gamanhasarmyndinni Leynilöggan sem og sjónvarpsþáttaröðinni IceGuys.
Þá muna margir eftir því að Rúrik dansaði til sigurs í þýsku útgáfunni af Let’s Dance.