Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

 „Stærsta verkefni sem ég hef komið nálægt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óskar Þór Axelsson, sem er meðal annars þekktur fyrir kvikmyndirnar Svartur á leik og Ég man þig sem var einn af vorsmellunum í íslenskum bíóhúsum árið 2017, mun leikstýra hluta af þriðju þáttaseríu Riviera. Þættirnir eru framleiddir fyrir bresku sjónvarpsstöðina Sky og hafa notið vinsælda um allan heim.

 

„Þetta er hrikalega spennandi. Stærsta verkefni sem ég hef komið nálægt,“ segir Óskar Þór, sem er um þessar mundir á fullu að búa sig undir tökur á þáttum í þriðju seríu af spennumyndaflokknum Riviera.

Eins og kunnugt er hafa fyrri seríurnar tvær notið mikilla vinsælda en þær fjalla um listaverkafræðinginn Georginu sem missir eiginmann sinn, milljarðamæringinn Constantine Clios, þegar snekkja hans springur í loft upp. Þegar Georgina fer að grennslast nánar fyrir um orsök slyssins flækist hún í heim lyga og glæpa. Þegar fréttist að til stæði að gera þriðju seríuna var fyrst óljóst hvort hún myndi áfram einblína á ævintýri Georginu, en Óskar fullyrðir að svo sé og bætir við að í þetta sinn verði lögð enn meiri áhersla á spennu en áður.

Óskar Þór Axelsson undirbýr nú tökur á þáttum í þriðju seríunni af Riviera. Óskar er sem kunnugt er enginn nýgræðingur þegar kemur að kvikmynda- og þáttagerð. Hann leikstýrði síðast þáttunum um Stellu Blómkvist, þáttum í Ófærð 2 og svo fjórum fyrstu þáttunum í bresku seríunni Sanctuary, sem var framleidd af  Yellow Bird, sama framleiðanda og gerði Stieg Larsson-þríleikinn og Wallander-þættina.

„Framleiðendurnir eru að fara örlítið nýja leið í þessari seríu til að viðhalda ferskleikanum án þess að hverfa frá upphaflegu hugmyndinni, til dæmis taka inn nýja karaktera og víkka sögusviðið út til Buenos Aires. Já, og færa söguna meira í átt að þriller. Það má segja að þar komi ég til sögunnar. Þeir voru nefnilega á höttunum eftir leikstjóra með reynslu af gerð spennutrylla og umboðsskrifstofan mín í Bretlandi, Independent Talent, mælti með mér með hliðsjón af þeim verkefnum sem ég hef verið að fást við, eins og Ófærð og Svartur á leik. Í framhaldinu hittumst við aðalframleiðandinn til að kanna hvernig okkur litist á það sem hinn hafði fram að færa og okkur leist bara svo vel hvor á annan að ég ákvað að slá til.“

Mikil pressa að láta allt ganga upp

Óskar kemur til með að leikstýra þremur þáttunum í seríunni og undanfarna tæpa tvo mánuði hefur hann verið í Buenos Aires í Argentínu að undirbúa tökur, enda segir hann mikilvægt að vera mjög vel undirbúinn þegar um jafnumfangsmikið verkefni er að ræða og þetta. „Þetta eru síðustu þrír þættirnir í seríunni, sem eru í heildina eins og löng kvikmynd og ansi mikið af flóknum senum sem þarf að taka, aksjón atriði á stærri skala en ég hef gert áður þannig að maður þarf að undirbúa þetta vel. Þessi erlendu verkefni eru oft stærri í sniðum en þau sem maður er að fást við heima og verkefnið núna er risastórt. Ég hef ekki einu sinni tölu á öllum sem eru í tökuliðinu, það eru svo margir sem koma að þessu og þar af leiðandi eru háar fjárupphæðir í spilinu. Mikil pressa að láta allt ganga upp,“ útskýrir hann og bætir við að það hjálpi til að hann hafi áður komið til Bueons Aires og sé því aðeins kunnugur staðháttum.

- Auglýsing -

Ný útgáfa af Ég man þig

En hvað réði því að hann tók verkefnið að sér? „Ja, meðal annars kunni ég vel að meta það þegar fram-leiðandinn sagðist eingöngu vinna með „no bullshit“ fólki. Það skiptir nefnilega máli, sérstaklega þegar maður tekur að sér svona stór verkefni, að starfa með fólki sem vinnur vinnuna sína vandkvæðalaust. Svo er mikill metnaður í gangi að baki gerð þessara þátta; það er ekkert til sparað, hvorki þegar kemur að tæknibrellum, búningum, tökustöðum né öðru. Sem dæmi eru þættirnir skotnir þar sem þeir eiga að gerast, það er ekkert verið að blöffa. Ég fíla líka metnaðinn í handritaskrifunum, það er farið með þriðju seríuna meira í átt að einhverju eins og James Bond og það rímar vel við mitt áhugasvið. Ég fæ til dæmis mikið af handritum með yfirnáttúrulegu ívafi inn á mitt borð í gegnum umboðsskrifstofur mína, bæði úti í Bretlandi og svo WME í Los Angeles en spenna og glæpir höfða einfaldlega meira til mín.”

„Það er ekkert til sparað, hvorki þegar kemur að tæknibrellum, búningum, tökustöðum né öðru.“

Ertu að segja að þú hafir fengið nóg af hryllingsmyndum eftir að hafa gert Ég man þig, skýtur blaðamaður inn í og brosir? „Nei alls ekki,“ flýtir hann sér að svara. „Mér fannst mjög gaman að gera þá mynd og það sem heillaði mig við hana er að hún er samblanda af tveimur ólíkum formum, hrollvekju og glæpasögu. Og fyrst við erum að tala um hana þá get ég ljóstrað því upp að ný útgáfa af Ég man þig verður frumsýnd í tveimur hlutum á RÚV um páskana. Ég viðurkenni nú að í fyrstu var ég reyndar ekkert yfir mig spenntur að fara að krukka í gamalli mynd eftir mig þegar sú hugmynd kom upp að gera lengri útgáfu af henni, sá ekki alveg tilganginn með því. En ég lét tilleiðast og nú er ég hæstánægður með lokaútkomuna. Er jafnvel ekki frá því að hún sé betri en sú upprunalega, að saga bókarinnar komist betur til skila, ef eitthvað er.“

- Auglýsing -

Julia Stiles mjög geðþekk

En er ekki mikill munur á því að gera bíómynd þar sem maður tekur þátt í sköpunarferlinu frá upphafi eða koma í miðjum klíðum inn í þætti sem aðrir hafa meira og minna mótað? Upplifirðu það ekki sem skerðingu á listrænu frelsi? „Vissulega er þetta aðeins öðruvísi, maður þarf að vinna innan í ákveðnu boxi en það þarf ekkert að vera síður skapandi eða skemmtilegt. Auðvitað er svolítið krefjandi að koma inn í þetta svona seinna í ferlinu, ég játa það, en ég er búinn að eiga í góðu samtali við hina leikstjórana, þá sem hafa verið með frá upphafi og við leikarana í gegnum Skype, þar á meðal aðalleikkonuna Juliu Stiles sem er mjög geðþekk, þannig að ég verð vel undirbúinn þegar við hittumst núna um miðjan mánuðinn og hefjum tökur. Aðkoma mín að þessu tvennu er því ólík, já, en í báðum tilvikum er heilmikil áskorun fyrir hendi. Það verður að vera og smástress, annars væri nú ekkert gaman að þessu,“ segir Óskar og hlær.

Og hvað tekur svo við þegar tökum lýkur? „Það liggur nú ekki alveg fyrir. Við skulum bara segja að ég sé að skoða nokkur verkefni, bæði hér heima og úti. Svo kemur bara í ljós þegar líður á árið hvað verður ofan á.“

Hér má sjá stiklu úr fyrstu seríu þáttanna Riviera:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -