Kaffihúsakeðjan Starbucks hefur tímabundið bannað notkun margnota kaffibolla á kaffihúsum sínum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum til að leggja sitt af mörkum til að hamla útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19. Forsvarsmenn keðjunnar segja það mikilvægara í augnablikinu að hefta útbreiðslu veirunnar en að stuðla að umhverfisvernd. Þeir sem koma með eigin margnota kaffiílát fá þó ennþá afslátt af verði kaffisins og hætt verður að krefjast gjalds fyrir einnota kaffibolla.
„Vegna margítrekaðra aðvarana ætlum við að gera hlé á notkun margnota kaffibolla og annarra íláta á kaffihúsum okkar,“ segir Robert Lynch, talsmaður keðjunnar í Evrópu í samtali við BBC og bætti við að Starbucks-keðjan, sem fyrst allra bauð viðskiptavinum afslátt af kaffiverði ef þeir kæmu með margnota ílát árið 1998, leggði nú einnig aukna áherslu á hreinlætið á kaffihúsum sínum, til dæmis með ítarlegri þvotti á bollum og diskum.
Til viðbótar við þessar varúðarráðstafanir hefur Starbucks lokað helmingnum af þeim 4.300 kaffihúsum sem fyrirtækið rekur í Kína til að leggja sitt af mörkum til að draga úr smithættu og frekari útbreiðslu veirunnar Covid-19.