Starfsfólk í vetrarþjónustu Reykjavíkur hefur fengið nóg af skilningsleysi í sinn garð. Sendi starfsfólkið frá sér bréf í lok janúarmánaðar til yfirmanna þar sem þau segja mörgu ábótavant.
Eftirlitsbílum hafi bannað að vera á nagladekkjum þrátt fyrir að keyra um í hálku og ófærð með mörg hundruð kíló á pallinum en Morgunblaðið fjallaði um málið í morgun.
„Þetta er óskiljanleg ráðstöfun og virðingarleysi við öryggi starfsmanna og þeirra sem verið er að þjónusta. Í vetur hefur ekki verið hægt að nota saltkassana sem skyldi vegna þessa. Þetta er ekki ásættanlegt,“ segir meðal annars í bréfinu.
Þá lýsa þeir rótgróinni eineltishegðun innan Reykjavíkurborgar í garð þeirra en segja þeir starfsmenn reglulega minnta á hversu háum launum þeir séu á miðað við menntun.
„Þetta er einn anginn af mismunun og einelti því sem er rótgróin hegðun innan Reykjavíkurborgar. Hroki, og þar með talinn menntahroki, er ein birtingarmynd fordóma og mismununar, ekki síður en vegna litarháttar, kyns eða fötlunar. Ástæður þess að sumir fara í háskólanám en aðrir ekki, getur verið af ýmsum toga. T.d. fjárhagur, fjölskylduaðstæður, veikindi af einhverju tagi, athyglisbrestur, lesblinda, eða þá bara einfaldlega það að menn hafa kosið að fara aðra leið í lífinu. Það er algjörlega óviðunandi að gert sé lítið úr fólki, því sé mismunað og lagt í einelti vegna einhverra þessara þátta. Það er þvert á stefnu Reykjavíkurborgar,“ segir í lok bréfsins.