Einn er í haldi lögreglu eftir að hafa haft í hótunum við RÚV og starfsmenn stofnunarinnar. Viðkomandi var handtekinn í gær og var öryggisgæsla í Efstaleiti, húsakynnum RÚV, aukin í gær vegna málsins. Eftir að lögregla handtók þann sem ábyrgur var færðist öryggisstig aftur í samt horf. Þetta kemur fram í samtali Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar á vef mbl.is
Hann telur viðkomandi enn í haldi lögreglu en segist ekki geta tjáð sig um eðli hótunarinnar en kvað ekki um sprengjuhótun vera að ræða.
„Í gær virðist sem eitthvað hafi borist, það sem telja mætti sem hótanir, gagnvart stofnuninni eða starfsfólki og á meðan lögregla var að staðsetja og handtaka viðkomandi sem stóð á bak við þessar hótarnir, þá jók Ríkisútvarpið við öryggisgæslu í húsinu. En eftir að viðkomandi var handtekinn þá var það dregið til baka,“ segir Ásgeir í viðtalinu.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hafði áður staðfest við mbl.is að öryggisgæsla hafi verið aukin tímabundið en kaus að tjá sig ekki um ástæðu þess.