Stefán Einar Stefánsson blaðamaður segir að „Spurninga-Björn Leví Gunnarsson er ósáttur við þær spurningar sem ég lagði fyrir Lenya Rún, nýjan leiðtoga Pírata í Spursmálum. Rökin eru þau að stjórnmálamenn eigi ekki að þekkja skattprósentur upp á kommur. En af hverju ekki?“ spyr hann og bætir við:

„Þarf skurðlæknir ekki að vita hvort hann eigi að nota hníf númer 1 eða 2, eða svæfingalæknirinn að vita hvort hann eigi að dæla 5 eða 10 mg af propofol í líkama sjúklingsins.“
Heldur áfram:
„Ekki viljum við að stjórnmálamennirnir sem fara með skattlagningarvaldið séu eins og verkfræðingarnir sem reiknuðu út burðarþolið á þaki Brákarborgar, sem nærrum því féll yfir leikskólabörnin sem þar voru vistuð.“

Stefán Einar segir að staðreyndin sé „þó sú, sem farið hefur fram hjá þingmanninum sem kallar eftir nákvæmum svörum frá ráðuneytum og stofnunum ríkisins í hverjum mánuði, að ég kallaði aldrei eftir því að Lenya svaraði upp á kommu eða neitt slíkt. Ég spurði einfaldlega hvort hún vissi hver veiðigjöldin á útgerðina væru um þessar mundir. Svarið var ekki að hún vissi það ekki upp á aukastafi. Hún sagðist einfaldlega ekki hafa hugmynd um það. Það er fréttnæmt, jafnvel þótt Píratar og sósíalistar og aðrir góðir menn leyfi sér í ljósi spurninganna að kalla mig siðlausan og kalli jafnvel eftir því að mér verði slaufað. Þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, greyjunum.“