Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og fyrrverandi formaður VR, neitar því ekki í samtali við Stundina að bera ábyrgð á fréttum sem birst hafa á vefmiðli Morgunblaðsins, mbl.is, á meðan verkfalli blaðamanna stendur. Telur Stefán að það sé ekki verkfallsbrot.
„Hjálmar Jónsson er bara enginn verkstjóri yfir mér eða öðru starfsfólki hér,“ segir Stefán Einar í samtali við Stundina, en Hjálmar er sem kunnugt er formaður Blaðamannafélags Íslands og hefur lýst yfir vonbrigðum með hversu illa hafi tekist að framfylgja vinnustöðvun mbl.is.
Annað verkfall blaðamanna í Blaðamannafélagi Íslands hófst í morgun klukkan 10. Þrátt fyrir það hafa margar fréttir birst á mbl.is, eftir að verkfallið hófst og þykir það brjóta í bága við túlkun og viðmið Blaðamannfélagsins á framkvæmd verkfallsins.
Fyrra verkfallið var síðastliðinn föstudag og stóð yfir í fjóra tíma. Á þeim tíma birtist á þriðja tug frétta á mbl.is. Blaðamannafélag Íslands túlkar birtingu greinanna sem verkfallsbrot og hefur stefnt Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrir Félagsdóm vegna verkfallsbrota.
Í frétt Stundarinnar er greint frá því að samkvæmt stefnu Blaðmannafélagsins sé Stefán Einar einn þeirra blaðamanna sem hafi brotið verkfallið, en grein eftir hann, Hægir á eignaaukningunni, birtist klukkan 11 síðasta föstudag, þ.e. klukkutíma eftir að verkfall hófst.
Í samtali við Stundina kveðst Stefán Einar bera ábyrgð á birtingu fréttarinnar. „Ég skrifaði þessa frétt og þú getur bara flett upp á því sjálfur á mbl.is að hún birtist á þessum tíma,“ segir verkalýðsforinginn fyrrverandi.
Verkfall blaðamanna Blaðamannafélags Íslands, sem starfa á visir.is, mbl.is, frettabladid.is og ruv.is stendur yfir til klukkan 18 í dag.