Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Stefán Karl er látinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikarinn ástsæli, Stefán Karl Stefánsson, er látinn aðeins 43 ára að aldri eftir baráttu við gallgangakrabbamein. Hann lætur eftir sig eiginkonu, leikkonuna og ritstýruna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, og fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

Eftirlifandi eiginkona hans tilkynnti andlát Stefáns Karls á Facebook-síðu sinni.

„Yndið mitt, Stefán Karl Stefánsson, er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Stefán var fæddur 10. júlí 1975 og varð því 43 ára gamall. Að ósk hins látna verður engin jarðarför og jarðneskum leifum dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Fjölskyldan þakkar auðsýndan stuðning og hlýhug á undangengnum árum og sendir hinum fjölmörgu vinum og aðdáendum Stefáns Karls sínar innilegustu samúðarkveðjur,“ skrifar Steinunn Ólína.

Hinn íslenski Jim Carrey

Stefán Karl útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1999 og er hvað þekktastur fyrir túlkun sína á persónunni Glanna Glæp í Latabæ, túlkun sem vakti heimsathygli. Var hann oft kallaður hinn íslenski Jim Carrey, enda var Stefán Karl afar lunkinn í að bregða sér í ýmis líki. Þá aflaði Stefán Karl sér einnig margra erlenda aðdáenda þegar hann lék Trölla í leiksýningunni How the Grinch Stole Christmas í Bandaríkjunum og Kanada. Hann lék þessa skrautlegu persónu um það bil sex hundruð sinnum fyrir um tvær milljónir aðdáenda.

Hann lék í fjölmörgum verkum á sviði, og stendur þar einna hæst leikritið Með fulla vasa af grjóti þar sem hann lék aragrúa af persónum á móti Hilmi Snæ Guðnasyni. Verkið var fyrst sett á svið árið 2000, síðan árið 2012 og svo aftur í fyrra við mikinn fögnuð leikhúsgesta.

- Auglýsing -

Sæmdur riddarakrossi

Þá var leikarinn einnig mikill baráttumaður gegn einelti og rak góðgerðarsamtökin Regnbogabörn um árabil. Hann ferðaðist um landið með fyrirlestra sína og stóð fyrir mikilli vitundarvakningu í þessum efnum.

Stefán Karl var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Við sendum aðstandendum Stefáns Karls innilegar samúðarkveðjur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -