Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar, Stefán Ómar Jónsson, greiddi einn bæjarfulltrúa atkvæði gegn staðfestingu samstarfssamnings milli Mosfellsbæjar og Blikastaðalands ehf. sem er í eigu Arion banka, á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 4. maí 2022.
Í samtali við Mannlíf sagðist Stefán ekki vera á móti byggð í Blikastaðalandi. „Er ekki á móti Blikastaðalandi, það mun byggjast. Það er ekkert nýtt að Mosfellsbær eignist allar lóðir og opin svæði, eins og Leirvogstungu, Helgafell og Hulduhóla.“
Það sem Stefáni fannst einna helst við samninginn að athuga eru eftirfarandi punktar.
Í fyrsta lagi var bæjarfulltrúum fyrst kynnt drög samningsins fyrir rúmri viku síðan.
Í öðru lagi voru samningsdrögin algert trúnaðarmál og máttu bæjarfulltrúar ekkert tjá sig um þau utan lokaðs fundar, ekkert tjá sig á opinberum vettvandi né leita álits utanfrá.
Í þriðja lagi liggur ekki fyrir nein skoðun eða samanburður á öðrum valkostum varðandi uppbyggingu bæjarins og byggðaþróun hans.
Hér að neðan er niðurlag úr ræðu bæjarfulltrúans við umræðu um málið og bókun hans eftir að samningurinn hafði verið samþykktur.
„Ágæti forseti.
Vinir Mosfellsbæjar segja að skipulag eigi að vera á forsendum íbúa, með íbúum og fyrir íbúa, en ekki á forsendum bankastofnunar.
Forseti ég er hér í dag til þess að verja aðkomu og skoðanafrelsi íbúa Mosfellsbæjar, ekki til þess að taka þátt í leyndarhjúp. Ég hefði kosið að fá mun betri tíma tíl að rýna samningsdrögin, til að leita utanað komandi álita og til að eiga (vondandi ásamt ykkur öllum) samtal við íbúa Mosfellsbæjar um verkefnið.“
Umræðu um málið má sjá og heyra af upptöku frá bæjarstjórnarfundinum hér.
Stefán Ómar kom með bókun eftir að samningurinn hafði verið samþykktur.
„Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar vísar til ræðu sinnar hér fyrr á fundinum, hvar í ræðunni hann reyfaði og vitnaði m.a. til lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar um virka aðkomu íbúa að öllum grundvallar stefnumótunum/framkvæmdum, þar sem hann mótmælti þeim leyndarhjúp sem hvíldi yfir samningsgögnum allt þar til komið var á þennan fund.
Bæjarfulltrúinn telur að nauðsynlegt hafi verið að hafa fleiri valkosti til samanburðar og þar sem hann óttast að þetta stóra verkefni dragi um of úr mætti bæjarins til að endurbæta og viðhalda þeim þjónustustofnunum sem við þegar erum með í dag.
Það er mikið talað um að hið lýðræðislega ferli og að samráð við íbúa eigi eftir að fara fram.
Til hvers erum við að gera samning núna ef allt samráð á eftir að fara fram og hvað gerum við ef mál þróast þannig að samningsákvæði samningsins verða ekki skipulagslega uppfyllt?
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar greiðir, í ljósi alls þessa, atkvæði gegn staðfestingu samningsins.“
Atkvæði voru greidd um frestun á samningnum en var sú tillaga felld með 5 atkvæðum S- og V- lista, samþykkt af L-, S- og M- lista og C- listi sat hjá. Samningurinn var svo samþykktur með 5 atkvæðum S- og V- lista, S-, C- og M- listi sátu hjá, L- listi greiddi atkvæði á móti.