Að mati Stefáns Ólafssonar, prófessors emeritus í félagsfræði og efnahagsráðgjafa Eflingar er mikið svigrúm til launahækkana í yfirstandandi kjaraviðræðum.
Stefán segir að viðræður Eflingar og SA gangi frekar hægt, en von sé á tilboði frá SA í dag.
Hann segir að kaupmáttur launþega hafi verið skertur of mikið:
„Þetta er allt að gerast í því samhengi að árið í ár er metár í hagvexti. Hagvöxtur verður á milli sex og sjö prósent. Hæsta hagvaxtarspá er 7,3 prósent. Árið í fyrra var 4,4 prósent.
Tvö mjög góð hagvaxtarár. Mjög mikill hagnaður hjá fyrirtækjum í fyrra. Hann verður án efa meiri í ár. Framleiðniaukning í kringum þrjú prósent, að öllum líkindum. Ef það kemur ekki kaupmáttaraukning í slíkum aðstæðum þá eykst hlutur fjármagnsins og atvinnurekenda af þjóðarframleiðslunni og hlutur launafólks minnkar og það er mjög óeðlileg framvinda,“ en Þetta sagði Stefán í viðtali við morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.