Sumir vilja meina að sumarið sé búið og haustið sé tekið við en samkvæmt veðurfræðingum er ennþá hiti í kortunum. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag segir veðurfræðingurinn Teitur Arason að líkur séu á heitasta degi ársins á miðvikudaginn kemur. Segir hann allt benda til þess að hitinn nái 28 gráðunum um norðvestanvert landið en fyrra hitamet ársins mældist á Akureyri 20. júlí en þá fór hitinn upp í 27,5 gráður. Talsvert kaldara og hvassara verður sunnanlands. Á Austurlandi verður hlýtt þessa vikuna eins og reyndar verið hefur nánast í allt sumar. Annarsstaðar á landinu verður nokkuð milt og gott veður.
Til þess að hitatölur fari upp í topp þarf þrennt að gerast að sögn Teits. Til að byrja með þarf að vera hlýr loftmassi yfir landinu, í öðru lagi þarf loftið að vera það þurrt að ekki dragi ský fyrir sólu og að lokum þarf vindur að standa af landi, svo hafgolan komist ekki upp á land. Öll þessi skilyrði verða sem sagt að öllum líkindum, norðvestanlands á miðvikudaginn og því nokkuð ljóst að blessuð sumarsólin haldi áfram að sveipa gulli dal og hól, að minnsta kosti eitthvað áfram.