Föstudagur 15. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Stefnumót við karlana í Alþingishúsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Borghildur Indriðadóttir teflir saman sterkum konum og táknmyndum valdsins í nýju ögrandi verki. Verkið markar upphaf Listahátíðar Reykjavíkur sem hefst á sunnudag.

Verk Borghildar samanstendur af sýningu á stórum ljósmyndum á Austurvelli og gjörningnum Drosophila sem hefst á Austurvelli og endar í Hafnarhúsinu. Á ljósmyndunum stillir Borghildur upp berbrjósta konum fyrir framan málverk, styttur og ljósmyndir af körlum sem hafa haft völd í stofnunum í Reykjavík. Myndirnar eiga að endurspegla gamlan tíðaranda og kúltúr þar sem karlar höfðu – og hafa kannski enn – mikil völd, en Borghildur veltir meðal annars fyrir sér hvort málverkin, ljósmyndirnar og stytturnar af þeim eigi mögulega þátt í að viðhalda þessum kúltúr.

Að hennar sögn var heimsókn í Alþingishúsið kveikjan að verkinu. „Ég og afi minn, Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt, tókum þátt í samkeppni um viðbyggingu Alþingis og fórum í vettvangsferð um Alþingishúsið og þá blöstu þessi málverk og þessar styttur af karlmönnum við,“ rifjar hún upp. „Ég bað um leyfi fyrir því að taka myndir í fundarherbergi Sjálfstæðisflokksins þar sem einungis eru málverk af karlmönnum á veggjunum. Ég fékk Magnús Andersen ljósmyndara til að taka myndirnar og þær Stellu Briem Friðriksdóttur, Öddu Þóreyjardóttur Smáradóttur og Nönnu Hermannsdóttur til að stilla sér upp við þessi verk. Þetta var fyrir rúmu ári og í kjölfarið fór ég að skoða fleiri stofnanir í Reykjavík og uppgötvaði þá að ég var með með áhugavert viðfangsefni í höndunum.“

„Styrkur kvenna hefur í gegnum aldirnar áður verið túlkaður með berbrjósta konum. Það er til dæmis eldgamalt minni um Amasónurnar í grískri goðafræði sem sýnir mikinn styrk.“

Borghildur viðurkennir að á ýmsu hafi gengið við gerð myndanna. „Það var ekki alltaf sjálfgefið að fá leyfi til að taka myndir og stundum voru gerðar athugasemdir þar sem starfsmaður skrifaði mér eftir á og lýsti yfir áhyggjum sínum yfir því að myndirnar kæmu illa út fyrir viðkomandi stofnun,“ nefnir hún sem dæmi.

Spurð hvers vegna nekt kvenna gegni einmitt svona veigamiklu hlutverki á sýningunni segist hún vera að tefla saman annars vegar táknmyndum valdsins og hins vegar einhverju sem er algjörlega berskjaldað. „Ég er að benda á mikilvægi þess sem er viðkvæmt og berskjaldað. Styrkur kvenna hefur í gegnum aldirnar áður verið túlkaður með berbrjósta konum. Það er til dæmis eldgamalt minni um Amasónurnar í grískri goðafræði sem sýnir mikinn styrk,“ útskýrir hún og bætir við að með myndunum sé hún líka að spá í almenningsrými og hverjum þau tilheyri.

Ljósmyndirnar verða sýndar á Austurvelli á sunnudag. Samhliða því stendur Borghildur fyrir gjörningi, Drosophila, skipulögðum í samstarfi við Klúbb Listahátíðar, sem hefst í Alþingishúsinu klukkan 18 og lýkur í Hafnarhúsinu hálftíma síðar. Hún segir gjörninginn spretta upp úr vinnslu ljósmyndanna og byggja á pælingum sínum um hið kvenlæga og karllæga í náttúrunni og þjóðfélaginu, en gjörningurinn dragi heiti sitt af ávaxtaflugunni drosophila melanogaster sem hefur verið mikið rannsökuð til að svara líffræðilegum spurningum um kyn og kynhegðun. „Ég hef bara mikið verið spá hvernig það gerist í náttúrunni að það verða til mismunandi kyn. Hvernig spilar samfélagið þar inn í? Hvernig framkallast það í hegðunarmynstri lífveranna? Ekki síst í ljósi umræðunnar um „gender fluidity“, eða kynjaflökt. Þetta er allt svo flókið, fjölbreytt og heillandi.“

- Auglýsing -

Fleiri myndir á demoncrazy.is.

Dagskrá Listhátíðar Reykjavíkur má nálgast hér. á www.listahatid.is

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -