Fjölmiðlanefnd hefur sektað Doc Media slf., sem á hlaðvarpið Dr. Football, að greiða fimm hundruð þúsund krónur í stjórnvaldssekt fyrir brot á lögum um fjölmiðla.
Hvaða brot skyldu þetta vera?
Jú, brotin hafi annars vegar falist í því að auglýsa áfengi og hins vegar þar sem félagið hafi ekki sinnt skráningarskyldu sem á fjölmiðlum hvílir.
Þá var einnig talið að aðstandendur hlaðvarpanna FantasyGandalf og Steve Dagskrá hafi brotið gegn lögunum, en ekki var lögð sekt á þá.
Hér er um að ræða áhugavert og jafnvel sögulegt mál; með gjörðum sínum hefur fjölmiðlanefnd í fyrsta sinn slegið því föstu að hlaðvörp gætu verið skráningarskyld sem fjölmiðlar, og verði að lúta þeim lögum sem um slíka gilda.
Mat nefndarinnar var að hlaðvörpin þrjú litu ritstjórn, efnistök og umfjöllum væri valin sérstaklega og þáttum kaflaskipt, og að efni þeirra hefði verið miðlað til almennings.
Nefndin féllst ekki á varnir um að þáttunum væri ekki sérstaklega miðlað hér á landi; að þeim væri miðlað gegnum alþjóðleg forrit. Skýrar vísbendingar væru um að aðstandendur þeirra nytu fjárhagslegs ávinnings af þeim þótt þeir hefðu þau mögulega ekki að aðalstarfi.
Hvað varðar Steve Dagskrá fólst brotið í að hafa auglýst veðmálasíðuna Coolbet og FantasyGandalf fyrir að auglýsa sömu síðu. Því til viðbótar hafði FantasyGandalf auglýst áfengisvörumerkið BOOM. Þau hlaðvörp höfðu heldur ekki sinnt skyldu sinni til að skrá sig hjá fjölmiðlanefnd.
Í tilfelli hlaðvarpsins vinsæla Dr. Football var erindum aftur á móti svarað seint og illa; þurfti að senda stefnuvott á heimili Hjörvars Hafliðasonar, umsjónarmanns þáttarins; sektin var ákveðin 500 þúsund krónur.