Steinar Hrafn Trampe lést nýverið á heimili sínu eftir erfið veikindi síðustu árin. Steinar Hrafn hóf nám við Tækniskólann í Reykjavík á tölvubraut 2008 og stundaði það nám um sinn, en lauk ekki námi.
Í minningargrein í Morgunblaðinu minnist móðir Steins Hrafns hans með hugljúfum orðum.
„Á fallegum björtum vetrardegi komstu í heiminn, fínlegur, nettur og fullkominn drengur. Þú braggaðist vel og níu mánaða varstu farinn að ganga og klifra, fótviss og öruggur með þig. Þegar þú byrjaðir á leikskóla varstu orðinn stóri bróðir og stoltur af Söndru. Við fluttum til Álaborgar og þar fórstu í nýjan leikskóla og lést það ekkert trufla þig að allir aðrir í leikskólanum töluðu dönsku, þú talaðir bara íslensku og fóstrurnar urðu að bjarga sér um túlk og þið Hafþór urðuð leikfélagar.“
Þá rifjar hún upp heimsóknir afa og ömmu Steinars til fjölskyldunnar. „Heimsóknir Bigga afa og Helenu ömmu til okkar í Álaborg snerust um að gera skemmtilega hluti með okkur; Legoland, sundlaugar, bíltúrar, strandferðir og bílaleikur eða legó á gólfinu.“ Árið 2001 segir móðirin að þau hefði flutt aftur til Íslands og að hann hafi verið glaður og spenntur að byrja í 4. bekk Seljaskóla. „Næstu ár urðu erfiðari og þú lentir í ýmsum raunum og áföllum. Þegar þú komst í unglingadeildina varstu feginn og tókst gleði þína á ný þegar þú kynntist nýju fólki.“
Einnig minnist móðirin á það þegar Steinar litaði hárið á sér blátt eftir fermingu. „Eftir ferminguna komstu til mín og tilkynntir mér að nú væri komið að bláa hárinu, en þegar þú varst sex ára baðstu um að fá að lita hárið strumpablátt. Og ég lofaði að þú gætir fengið blátt hár eftir fermingu og hafði nú vonað að það gleymdist. En blátt varð hárið og klæddi þig vel.“
Móðirin minnist svo góðra stunda saman með syninum. „Þú hafðir sköpunarþörf sem birtist í tónlistarsköpun og varst stoltur af því sem þú varst að gera og deildir því gjarnan með okkur. Við áttum margar stundir við að mála saman og jólagjöfin sem þú málaðir handa mér mun hanga áfram í herberginu mínu og minna mig á þessar góðu stundir.“
Líkur hún þessari fallegu minningargrein á þessum orðum: „Elsku Steinar, þú vissir að þú varst elskaður og velkominn frá fyrstu stundu og það verður sárt að fá ekki lengur símtölin frá þér og taka á móti þér í mat, fara saman á tónleika, út að borða, í bíltúra og gönguferðir. Ég veit að fólkið okkar sem fór á undan þér tekur á móti þér og að þú átt eftir að hvíla í friði hjá Bigga afa, elsku Steinar Hrafn.“