Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var hætt kominn og heppinn að lifa af þegar hann velti bifreið sinni í hálku við bakka Svartár. Í Mannlífsviðtali rifjar hann upp slysið og afleiðingar þess. Skömmu fyrir slysið gekk hann þvert yfir landið en var svo skyndilega kominn í göngugrind.
Steingrímur segir að það sé eftirminnilegt þegar hann var kominn aðeins á stjá eftir slysið og leit niður í Alþingi um vorið eftir að hafa verið lengi í veikindaleyfi. HAnn hitti Einar Odd Kristjánsson alþingismann sem gladdist mjög við endurfundina. „Þá hitti ég vin minn, Einar Odd, sem sagðist vera svo feginn að sjá mig. Hann sagði að hann hafi orðið svo hræddur um að ég væri dauður eða verra en dauður þegar ég lenti í slysinu. Þetta var býsna vel orðað því að þetta snýst ekki bara um að lifa af heldur að það sé eitthvað gott líf sem maður á þá áfram; að maður sé ekki svo illa farinn að það sé næstum því eins og hann orðaði það sem væri verra en að vera dauður.“
Steingrímur finnur enn fyrir afleiðingum slyssins. „Öndunin hefur aldrei orðið eins góð og hún var – ég mæddist aldrei fyrir slysið en núna geri ég það svolítið. Ég snöggmæðist við fyrstu áreynslu en svo jafnar það sig og ég hef ágætis þrek og get alveg gengið á fjöll. Svo veit maður ekki hvaða áhrif árin sem bæst hafa við eru að hafa líka. En ég er mjög sáttur við það form sem ég er í og hvernig hefur unnist úr þessu öllu saman.“
Viðtalið við Steingrím er hér í heild sinni.